Fréttaskýring: Hækka burðargjöld og minnka þjónustu

Frá höfuðstöðvum Íslandspósts.
Frá höfuðstöðvum Íslandspósts.

Bréfasendingum hefur fækkað um allan heim á nýliðnum árum, fyrst og fremst vegna rafrænnar þróunar. Kostnaður hefur aukist og tekjur minnkað en til að snúa dæminu við þarf að draga úr rekstrarkostnaði með því að slaka á þjónustukröfum og hugsanlega hækka burðargjöld til samræmis við það sem þekkist í nágrannalöndunum, að sögn Ingimundar Sigurpálssonar, forstjóra Íslandspósts.

Fyrir helgi efndi Íslandspóstur til málþings um póstþjónustu á Íslandi. Fram kom að vegna ákvörðunar Evrópuþingsins um afnám einkaréttar í póstþjónustu, verulegrar aukingar á rafrænum bréfasendingum og fækkunar almennra bréfa hefðu orðið miklar breytingar á rekstri póstfyrirtækja í Evrópu undanfarin ár. Póstfyrirtæki hefðu unnið að því að laga reksturinn að breyttu rekstrarumhverfi og frekari breytingar blöstu við.

Óbreytt þjónustuskylda

Bréfum hjá Íslandspósti undir 50 grömmum fækkaði um 30% frá 2006 til ársloka 2011 og er talið að frekari 16% fækkun verði til 2015. Samkvæmt lögum um bréfadreifingu skal dreifa pósti í öll hús landsins alla virka daga ársins, þar sem því verður við komið, en íbúðum fjölgaði um 6% á fyrrgreindu tímabili.

Ingimundur áréttar að á sama tíma og einkaréttarbréfum fækki sé þjónustuskyldan samkvæmt lögum og reglum óbreytt. Það leiði til þess að kostnaðurinn aukist með fjölgun íbúða. Því sé aðeins um tvennt að velja: Að hækka burðargjöldin, en takmörk séu fyrir því hvað langt megi ganga í því efni, eða slaka á þjónustukröfunni. Í því felst meðal annars að fækka dreifingarstöðvum, póstafgreiðslum og dreifingardögum og að íbúar verði skyldugir að færa póstkassa einbýlishúsa, parhúsa og raðhúsa að lóðarmörkum til að minnka dreifingarkostnað. Hins vegar hafi Íslandspóstur ekki fullt forræði yfir þessum liðum þar sem stjórnvöld setji reglur um fyrirkomulag póstdreifingar.

Ágústa Hrund Steinarsdóttir, forstöðumaður markaðsdeildar Íslandspósts, bendir á að við afnám einkaréttar, hvort sem það verði í janúar á næsta ári eins og stefnt sé að eða síðar, sé þýðingarmikið að fyrir liggi skýrar leikreglur um fyrirkomulag póstdreifingar. Hafa beri í huga að við afnám einkaréttar verði að tryggja áframhaldandi póstþjónustu við alla landsmenn, hvort sem henni verði sinnt af Íslandspósti eða öðrum fyrirtækjum.

Frá 1998 hefur Íslandspóstur þurft að loka 20 pósthúsum á landinu og þar af fjórum á höfuðborgarsvæðinu, þar sem eru 11 pósthús. Ekkert pósthús er í sex póstnúmerahverfum í Reykjavík - 103, 104, 105, 107, 111 og 113 – í 201 og 203 í Kópavogi og á Álftanesi. Ingimundur segir að í raun sé ekkert samhengi á milli póstnúmera og fjölda póstafgreiðslna heldur sé þetta frekar spurning um aðgengi – hvað langt sé í næstu póstafgreiðslu. Fækkun póstkassa hafi heldur ekki valdið teljandi vandræðum hjá viðskiptavinum. „Við upplifum það ekki sem neitt vandamál,“ segir hann og vísar til þess að hver einstaklingur fari ekki oft í pósthús á hverju ári. Hann segir að á móti hafi Íslandspóstur boðið viðskiptavinum upp á aukna þjónustu eins og til dæmis SMS-frímerki og heimsendingarþjónustu á bréfum og pökkum.

Hagnaður Íslandspósts var mestur 2004 eða 356 milljónir króna en tapið mest 2001, 181 milljón. Frá 2002 til 2010 var hagnaður árlega.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert