„Hver vildi vera kallaður Kleppari?“

Lára Björnsdóttir sérfræðingur í velferðarráðuneytinu.
Lára Björnsdóttir sérfræðingur í velferðarráðuneytinu.

Fólk með geðraskanir fær síður læknisrannsóknir vegna líkamlegra kvilla og það greinist því síður með sjúkdóma á borð við háþrýsting og sykursýki. Saga geðsjúkdóma er vörðuð vanþekkingu, fordómum og útskúfun. Vatnaskil urðu í baráttu geðfatlaðra þegar umræðan um geðsjúkdóma varð opnari.

Þetta er meðal þess sem fram kom á aðalfundi Félagsráðgjafafélags Íslands í morgun.

„Mestu máli skiptir að heyra raddir þeirra sem eru í geðrænum vanda. Þannig bætum við þjónustuna,“ sagði Sveinbjörg J. Svavarsdóttir, doktorsnemi í félagsráðgjöf í erindi sínu á fundinum. Hún sagði að lífslíkur fólks með geðraskanir væru 20 til 25 árum minni en almennt gerðist og lífsgæði fólks með geðraskanir væru almennt sömuleiðis minni en gengur og gerist. 

„Við þurfum að leggja áherslu á að skýra félagslega þætti við greiningu, en ekki eingöngu líffræðileg sjúkdómseinkenni,“ sagði Sveinbjörg.

Hún sagði að fagfólk yrði að breyta vinnuaðferðum sínum og vera opnari fyrir þverfaglegum vinnuaðferðum. „Við þurfum að hætta að vera í „fæting“ við læknastéttina.“

Margir áttu ekki afturkvæmt

Lára Björnsdóttir, félagsráðgjafi og sérfræðingur í velferðarráðuneytinu sagði að saga geðsjúkdóma væri vörðuð vanþekkingu, fordómum og útskúfun. „Langt fram á 20. öldina var mjög litla hjálp að fá fyrir þennan hóp fólks,“ sagði Lára í erindi sem hún hélt á fundinum.

Hún sagði að margir þeirra sem voru lagðir inn á Klepp áður fyrr hafi aldrei átt þaðan afturkvæmt og að þeir hefðu undirgengist „tilrauna- og hrossalækningar.“ Lára sagði að þrátt fyrir tilkomu geðlyfjanna hefði þögnin og skömmin enn verið til staðar. „Hver vildi vera kallaður Kleppari?“

Hún sagði marga þeirra sem eiga við geðræna sjúkdóma lifa í félagslegri útskúfun og að þeir bæru stundum með sér rýran félagslegan arf til næstu kynslóðar. „Fram til 1992 var talað um sjúklinga, en síðan þá hefur verið viðurkennt að þetta er fötlun. En enn þann dag í dag eru stofnanir faldar, það veit enginn að þær eru til og þar er geðfatlað fólk sem ræður engu í sínu lífi.“

Lára sagði að mat á aðstæðum fatlaðra sem gert var í fyrra hefði leitt í ljós að staða geðfatlaðra var langverst í þeim hópi. 

„En það hefur ýmislegt gott gerst, sem betur fer. Meiri þekking og lyfin hafa hjálpað. En það sem ég tel að hafi gagnast mest er barátta þeirra sem í hlut eiga,“ sagði Lára.  

„Ég held að vatnaskilin hafi verið þau þegar málsmetandi fólk í samfélaginu reis upp og sagði frá sínum geðsjúkdómum, sinni geðröskun. Það lyfti þessu upp og fólk á auðveldara með að tjá sig núna,“ sagði Lára og sagði baráttu samkynhneigðra hafa verið geðfötluðum fyrirmynd, en árangur þeirrar baráttu hefði verið að gera samkynhneigða bæði sýnilega og viðurkennda.

„Í nýjum og síbreytilegum heimi þarf nýjar vinnuaðferðir,“ sagði Lára og talaði þar um valdeflingu geðfatlaðra sem fælist í því að fólk stjórnaði eigin lífi og hefði val. Hún sagði að áður fyrr hefði talsvert mikil forræðishyggja einkennt meðferð geðfatlaðra. „Það þarf að afstofnanavæða fagstéttirnar.“

Að sögn Láru er stefnumótun stjórnvalda á Norðurlöndunum mjög mismunandi. Hér á landi væru verkefni oft háð frumkvöðlastarfi einstaklinga og hópa og takmörkuð tenging væri á milli gæðaúttekta og úthlutunar fjármagns. Aftur á móti væri skýr stefnumótun á þessu sviði bæði í Noregi og Danmörku. „Hér er þörf á heildarstefnu. Stjórnvöld verða að segja hvert þau eru að fara.“

Sveinbjörg Júlía Svavarsdóttir, doktorsnemi í félagsráðgjöf.
Sveinbjörg Júlía Svavarsdóttir, doktorsnemi í félagsráðgjöf.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert