Fréttaskýring: Lítil skref eða umbylting á einni nóttu?

Félag atvinnurekenda gagnrýnir að magn tollkvóta matvöru miðast við neysluna …
Félag atvinnurekenda gagnrýnir að magn tollkvóta matvöru miðast við neysluna árin 1986-1988. „Margt hefur breyst síðan þá.“ mbl.is/Eggert

Hömlur á innflutningi búvara taka vart stakkaskiptum með lögfestingu frumvarps landbúnaðarráðherra um úthlutun tollkvóta á innfluttar búvörur en eftir sem áður gætu boðaðar breytingar haft umtalsverð áhrif. Innflutningur mun aukast ef marka má fjölda umsagna hagsmunaaðila, sem borist hafa atvinnumálanefnd Alþingis á seinustu dögum. Þær ganga í sitt hvora áttina.

Stefnt er að lögfestingu frumvarpsins í vor. Með því er brugðist við athugasemdum Umboðsmanns Alþingis varðandi úthlutun tollkvóta og gengur það út á að takmarka matskennd skilyrði sem uppfylla þarf við ákvörðun um úthlutun tollkvóta. Miða skal framvegis við magntolla til innflutnings á búvörum á lágmarkstollum en ekki verðtolla. Og skilgreint er hvaða staða þurfi að vera uppi á innanlandsmarkaði til að kvótum sé úthlutað.

Hagsmunasamtök í landbúnaði gagnrýna skilgreiningu á hvenær skortur er á innlendum landbúnaðarvörum sem skylda stjórnvöld til að opna fyrir innflutning með tollkvótum. Umdeilt er ákvæði um að framboð sé ekki nægjanlegt ef innlend landbúnaðarvara er ekki til stöðugrar dreifingar í að lágmarki 90% af eftirspurn.

Bændasamtökin leggjast alfarið gegn samþykkt frumvarpsins í óbreyttri mynd. Samband garðyrkjubænda segir breytinguna geta komið í bakið á garðyrkjubændum. ,,Óttast er að sú breyting sem verið er að boða með þessu frumvarpi styrki enn stöðu smásölunnar og henni verði veittur sá möguleiki að búa til skort allt eftir hentugleikum. Það eru bara þrjár smásölukeðjur sem ráða 90% markaðar. Samtímis er það staðreynd að þessir sömu aðilar reka eigin innflutnings- og dreifingarfyrirtæki sem einnig eru stærstu innflytjendur vöru. Varpa má fram þeirri spurningu hvernig forráðamenn smásölunnar stilli fram innlendri vöru gegn eigin innflutningi,“ segir í umsögn garðyrkjubænda.

Forsvarsmenn Matfugls ehf. skafa ekki af gagnrýninni og segja ekki eðlilegt að stuðningskerfi landbúnaðarins verði umbylt á einni nóttu án þess að gefa rekstraraðilum hæfilegan aðlögunartíma eða bæta þeim skaðann. Hjá félaginu eru 140 starfsmenn.

,,Matfugl ehf. sem er umfangsmikið fyrirtæki í eldi á alifuglum, slátrun þeirra og vinnslu hefur alvarlegar athugasemdir við frumvarp þetta. Stjórnendur Matfugls ehf. telja að ef frumvarpið verði samþykkt óbreytt muni það draga verulega úr þeirri vernd sem íslenskum landbúnaði er nauðsynleg til að halda áfram að framleiða gæðavörur fyrir íslenska neytendur í mörgum greinum landbúnaðarins,“ segja þeir.

Fram kemur í athugasemdum við frumvarpið að einungis einn aðili ali kalkúna hér á landi. Verði frumvarpið samþykkt óbreytt hafi það í för með sér að úthluta skuli tollkvóta í kalkún allan ársins hring. Samtök verslunar og þjónustu leggjast alfarið gegn lögfestingu frumvarpsins í núverandi mynd og segja m.a. að innlendir framleiðendur og tengd fyrirtæki séu virkir þátttakendur, og ráðandi innan einstakra tollflokka, í útboðum á tollkvótum sem að verulegu leyti raski allri samkeppni á innlendum kjötmarkaði. Samkeppniseftirlitið mælist til þess að innlendum afurðarstöðvum búvöru og vinnslustöðvum í þeirra eigu verði óheimilt að bjóða í kvóta.

Taka rétti af matseðli

,,Veitingastaðir hafa tilkynnt okkur að þeir hafi neyðst til að taka rétti af matseðli vegna þess að hráefnið fékkst ekki. Þetta á fyrst og fremst við um gæðanautakjöt og lambakjöt,“ segir í umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar við tollkvótafrumvarpið.

Er það sagt vera samdóma álit veitingastaða um land allt að þeir vilji fyrst og fremst bjóða íslenskt kjöt og það verði sífellt algengara að á matseðlum standi að landbúnaðarafurðirnar á matseðli séu íslenskar eða „beint frá býli“. „Það er mikil áhersla lögð á það, af hálfu veitingamanna, að leyft sé að flytja inn ferskt kjöt og að þess sé gætt við úthlutun á tollkvótum að innlendum framleiðendum verði óheimilt að bjóða í þá svo samkeppni á kjötmarkaði verði tryggð.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert