Sprotafyrirtækið RemindMe sigraði í frumkvöðlakeppni Innovit sem fram fór í gær en þar var keppt um Gulleggið 2012. Um er að ræða viðskiptahugmynd fimm verkfræðinema á lokaári við Háskóla Íslands. Verkfræðinemarnir fimm eru Ingunn Guðbrandsdóttir, Hildigunnur Björgúlfsdóttir, Ólafur Helgi Guðmundsson, Sveinn Bergsteinn Magnússon og Vaka Valsdóttir.
Um er að ræða sjálfvirkan og læsanlegan lyfjaskammtara sem stuðlar að markvissari lyfjameðferð eins og segir í tilkynningu frá Innovit. „Tækinu er ætlað að bæta meðferðarheldni lyfjagjafa en henni er oft ábatavant, sérstaklega hjá öldruðum og þeim sem hafa skert minni. Teymið vinnur nú að frumgerð tækisins og markaðssetningu á alþjóðavettvangi.“
Í öðru sæti var sprotafyrirtækið ViralTrade, sem er viðskiptahugmynd Guðlaugs Lárusar Finnbogasonar, og í þriðja sæti var Tónlistarskóli Maxímúsar, viðskiptahugmynd Margrétar Sigurðardóttur.
Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, afhenti sigurverðlaunin við hátíðlega athöfn á Háskólatorgi í gær.