Háskólum verði fækkað í fjóra

Lagt er til að háskólum á Íslandi verði fækkað úr sjö í fjóra í nýrri skýrslu Vísinda- og tækniráðs. Eftir breytingarnar yrðu tveir opinberir háskólar og tveir sjálfstæðir skólar. Ráðið telur að þessi leið yrði auðveld og myndi valda lítilli röskun. Jafnframt yrði sá ávinningur að festa háskólastarf í sessi á landsbyggðinni, þar sem þungamiðja háskóla yrði áfram á Akureyri. 

Fyrir ári hófst Vísinda- og tækniráð handa við að móta tillögur um einföldun á vísinda- og nýsköpunarkerfinu. Afraksturinn var tekinn saman í skýrslu sem birt er í dag til umsagnar. Fram kemur að fjármagn til hins opinbera vísinda- og nýsköpunarkerfis, þ.e. stofnana, háskóla og sjóða, hefur rýrnað um 5 milljarða frá 2007. Þessi mikla blóðtaka hafi þó ekki leitt til skipulagsbreytinga eða nýrrar hugsunar í kerfinu, en margskonar úttektir, innlendar jafnt sem erlendar, hafi bent á hversu brotakennt allt kerfið hér á landi sé og fé dreift víða. 

Hin leiðin að allir verði sjálfsteignarstofnanir

Í tillögum ráðsins um einföldun stofnana og háskóla er lagt til að Háskóli Íslands og Landbúnaðarháskóli Íslands sameinist í einn opinberan háskóla og Háskólinn á Akureyri og Háskólinn á Hólum í annan. Sjálfstæðir háskólar verði tveir: Listaháskóli Íslands og sameinaður skóli Háskólans í Reykjavík og Háskólans á Bifröst. 

Önnur leið til breytinga er nefnd í skýrslunni. Hún er sú að fjöldi háskóla yrði óbreyttur en þeir allir reknir sem sjálfseignarstofnanir. Slík breyting fæli í sér að ábyrgðin á verkaskiptingu þeirra og sameiningum yrði sett á háskólana sjálfa. Líklegur ávinningur af þessu, að mati Vísinda- og tækniráðs, yrði að enn skjótvirkari sameiningar og breytingar á verkaskiptingu næðust fram væri þessi leið farin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert