Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt tvo karlmenn í tólf mánaða fangelsi fyrir að hafa komið fyrir ólögmætum afritunarbúnaði, segulrandalesara yfir kortarauf og myndavél ofan við lyklaborð, á tvo hraðbanka í Reykjavík. Dómurinn taldi brotin mjög alvarleg, og þaulskipulögð.
Mennirnir, sem eru frá Rúmeníu en búsettir í Bretlandi, komu hingað til lands í febrúar sl. og voru sakfelldir fyrir að hafa á tímabilinu 22. febrúar til 1. mars komið fyrir afritunarbúnaðinum. Annar þeirra játaði sök en hinn neitaði alfarið.
Í dóminum segir að brotin hafi leitt til umtalsverðs tjóns og frekari tjónshætta hafi verið mikil þar sem upplýsingar úr segulröndum greiðslukorta höfðu komist til Bretlands. Upp um háttsemi þeirra komst fyrir tilstilli athuguls viðskiptavinar.
Í rannsóknargögnum málsins var bréf frá forstöðumanni viðskiptasviðs Borgunar frá 19. mars sl. Í umræddu bréfi kemur fram að 3. mars sl. hafi byrjað notkun falsaðra korta í Bretlandi, sem rekja megi til skimunar í hraðbönkum á Íslandi. Gerðar hafi verið 166 tilraunir til úttekta á 74 fölsuð kort að upphæð 4.385.658 krónur.
Af þessum 74 kortum hafi náðst að taka út á 25 kort, að fjárhæð 1.027.834 krónur. Á tímabilinu 3. til 13. mars sl. hafi verið gerðar samtals 147 tilraunir til úttekta í Bretlandi, 17 tilraunir í Mexíkó og tvær í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Ef miðað sé við tímabilið 24. febrúar til 2. mars 2012 megi rekja uppruna allra hinna fölsuðu korta til tveggja mismunandi hraðbanka.
Þar sem hinir íslensku korthafar hafi notað kortin sín í mörgum öðrum hraðbönkum á sama tímabili megi ekki útiloka að fleiri hraðbankar hafi verið skimaðir. Ef miðað sé við tímabilið 18. febrúar til 2. mars 2012 þá hafi sömu kort verið notuð í sex mismunandi hraðbönkum. Þegar misnotkunin hafi hafist hafi verið gripið til þess ráðs að loka á erlenda heimild um 1.900 debetkorta og loka 500 kreditkortum.
Þá var í rannsóknargögnum málsins bréf frá Valitor 14. mars 2012. Í bréfinu kemur fram að útgáfubankar Valitor hafi ákveðið að loka 1.100 debetkortum og 375 kreditkortum vegna gruns um afritun kortanna. Af þeim kortum sem lokað hafi verið hafi verið reynt að nota 150 debetkort og 83 kreditkort í London á tímabilinu 3. mars til 9. mars 2012.
Hins vegar hafi tekist að nota 54 debetkort með sviksamlegum hætti til úttekta á samtals 1.828.634 krónum og 10 kreditkortum fyrir úttekt á samtals 211.956 krónum. Hina sviksamlegu notkun í Bretlandi megi rekja til afritunar á þeim í þremur hraðbönkum á Íslandi. Þá kemur fram að einnig hafi verið reynt að nota þrjú kreditkort af ofangreindum kortum í Mexíkó og eitt debetkort í Indónesíu.
Í niðurstöðu dómsins segir að með hliðsjón af alvöru málsins verði refsingin ekki bundin skilorði.