Fylgst með framvindu mála í Öskju

Öskjuvatn sérst hér greinilega íslaust á MODIS gervihnattamynd frá NASA …
Öskjuvatn sérst hér greinilega íslaust á MODIS gervihnattamynd frá NASA þann 2. apríl. Af vef Veðurstofu Íslands

Engar frekari ákvarðanir hafa verið teknar um vöktun á svæðinu í kringum Öskjuvatn, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands. Líkt og Mbl.is hefur greint frá er vatnið íslaust sem þykir óvanalegt á þessum tíma árs. Hugsanlegt er að að ástæðan sé aukinn jarðhiti á svæðinu.

Einar Kjartansson sérfræðingur hjá Veðurstofunni segir að ekki sé um neitt dagaspursmál að ræða en verið sé að ræða hvort ástæða sé til að fara á Öskjusvæðið og gera frekari mælingar. Farið var í könnunarflug yfir vatnið með hitamyndavél á mánudag en engin merki sáust um aukinn jarðhita.

Einar bendir þó á að það sýni aðeins yfirborðshitann, vatnið sé hinsvegar mjög djúpt, um 220 metrar, og því væri forvitnilegt að mæla hitann undir yfirborðinu. Til þess þyrfti þó að fara á svæðið og Einar segir ekki útilokað að það verð gert. Fundað var m.a. um málið hjá Veðurstofunni í morgun. Málið verður einnig rætt á fundi hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands síðar í dag. Engin ákvörðun hefur verið tekin en áfram verður fylgst með framvindu mála. 

Mjög virk megineldstöð er í Öskju. Nokkur gos urðu þar á síðustu öld, það síðasta 1961. Þau voru öll fremur róleg en árið 1874 varð öflug goshrina á svæðinu. Skjálftavirkni á svæðinu hefur heldur verið að aukast undanfarin ár. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert