Hvað skyldi vera gert við páskaegg sem ekki seljast? Þau eru oftast brotin upp, súkkulaðið nýtt til annarrar sælgætisframleiðslu og innihald þeirra ýmist gefið eða nýtt til annars. Ungarnir og málshættirnir enda þó í ruslakörfunni.
Verslanir geta nýtt sér skilarétt á eggjunum og eru þau að berast sælgætisframleiðendum þessa dagana, þannig að endanlegar sölutölur liggja ekki fyrir.
„Við framleiddum um 100.000 egg, sem er nokkuð meira en í fyrra,“ segir Atli Einarsson hjá sælgætisverksmiðjunni Góu. „Við framleiðum nokkuð meira af stórum eggjum, en mér sýnist að við höfum selt mest af páskaeggi númer þrjú, sem er 175 grömm.“
Atli segist búast við að óseld páskaegg berist Góu til baka næstu dagana. „Við brjótum þau upp, nýtum það sem hægt er og sumt gefum við,“ segir Atli. „Þetta tekur einhverja daga.“ Hann segir að ekki sé bætt við mannskap í verksmiðjuna til þessara starfa, starfsemin sé skipulögð með þetta í huga.“
Ungarnir fara í ruslið
Lárus Eggertsson, sölustjóri hjá Freyju, segir að verksmiðjan hafi framleitt á milli 400.000 og 500.000 páskaegg, sem eru 20% fleiri egg en í fyrra. „Við vitum ekki hvað við seldum mikið, það er ekki búið að skila óseldu eggjunum, en ég held að mest hafi selst af Ríseggjum,“ segir Lárus.
Hann segir misjafnt hvað gert sé við þau páskaegg sem ekki seljist. „Sum er ekkert hægt að gera við, önnur eru tekin í sundur og brædd.“
En hvað með ungana og málshættina? „Því er öllu hent,“ segir Lárus.