15 ára týndur í níu daga

Það sem af er þessu ári hefur verið lýst eftir tíu unglingum í fjölmiðlum, fimm stúlkum og fimm piltum. Þessar tölur gefa síður en svo rétta mynd af þeim ungmennum sem saknað er um lengri eða skemmri tíma, því allflest skila þau sér áður en lýst er eftir þeim á opinberum vettvangi. Í fyrra var lýst eftir 22 unglingum, þar af einum fjórum sinnum, en lögregla leitaði þá að 91 ungmenni í 182 skipti.  

Árið 2010 var lýst 23 sinnum eftir 18 börnum og unglingum.

Af þeim tíu sem hefur verið lýst eftir í ár, hafði áður verið lýst eftir þremur. Tveimur þeirra í fyrra og einu í hitteðfyrra. Árni Þór Sigmundsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir að svo virðist stundum sem það sé engin sérstök skömm í því að láta lýsa eftir sér í fjölmiðlum. „Það virðist að minnsta kosti ekki stöðva þau í að láta lýsa eftir sér aftur og aftur,“ segir Árni Þór.

Lítið samræmi

Lítill kynjamunur virðist vera að þessu leyti. Fjöldi þeirra stráka og stelpna sem lýst var eftir það sem af er þessu ári og árin 2011 og 2010 er svipaður og eins eru þau oftast á aldrinum 14-16 ára. Yngstu börnin sem lýst hefur verið eftir eru 12 ára, bæði strákur og stelpa. Algengast er að þeir drengir sem lýst er eftir séu 15 ára, en oftast er lýst eftir 16 ára stúlkum.

Þetta er ekki í samræmi við  aldur þeirra sem grennslast er eftir eða leitað er að, en samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu var oftar leitað að drengjum en stúlkum árið 2011, en þá var leitað að 91 einstaklingi, 54 piltum og 37 stúlkum. Flestir piltanna voru 14-15 ára en stúlkurnar voru flestar 13 ára.

15 ára týndur í rúma viku

Langur tími virðist oft líða frá því að ungmenni sést á ferli og þangað til lýst er eftir því, eða allt upp í rúma viku. Það gerðist til dæmis þegar lýst var eftir 15 ára unglingspilti í fyrra. Árni segir að áður en lýst sé eftir börnum og unglingum sé búið að grennslast fyrir um þau um hríð bæði af lögreglu og yfirleitt aðstandendum. Málið sé ekki þannig í pottinn búið að enginn óttist um þau þangað til farið sé að lýsa eftir þeim.

„Það verður að gæta þess að það er svo mismunandi saga á bak við þessa krakka. Ef óttast er um afdrif þeirra einhverra hluta vegna, þá er strax farið í að lýsa eftir þeim. Það getur verið vegna neyslu eða einhvers konar hótana. En það er í mjög fáum tilvikum þannig. Oftast hafa þau verið að flakka á milli vina og kunningja og foreldrarnir vita ekki betur en að allt sé í besta lagi,“ segir Árni og bætir við að oft láti ungmenni sig hverfa eftir helgar. „Það er algengt að þau séu týnd á bilinu 3-5 daga.“

Ábendingar koma víða að

Hann segir að ábendingar berist víða að eftir að búið sé að lýsa eftir ungmenni. Þær komi frá vinum og kunningjum sem hafi áhyggjur. „Svo vitum við oft nokkurn veginn hvar þau eru, þau láta vini sína oft vita að það sé í lagi með þau þannig að það er oft hægt að finna þau í framhaldi af því.“

Árni segir að fréttaflutningur af því að börnum sé haldið nauðugum hjá misyndismönnum  eigi ekki við rök að styðjast samkvæmt sinni bestu vitund. „Ég veit ekki til þess að týnt ungmenni hafi fundist við slíkar aðstæður og veit reyndar ekki til þess að nokkur hafi staðfest slíkt.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert