Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur telur að óvenjulega mikill hiti á hálendinu í mars og hláka sem fylgdi hutunum geti skýrt að Öskjuvatn sé nú íslaust.
Talsvert hefur verið fjallað um ísleysið á Öskjuvatni hefur leiðangur verið sendur í Dyngjufjöll til að kannað málið. Hitinn vatnsins var mældur og hann reyndist eðlilegur þ.e. rétt ofan frostmarks.
Einar bendir að þó að Öskjuvatn sé í rúmlega 1.000 metra hæð sé það mjög djúpt og því lengi að kólna að haustinu. Í frosthörkum síðla haustsins leggi það hins vegar óhjákvæmilega en í þessari hæð sé frostið gjarnan um 10 stig dag eftir dag þegar komið er fram í lok nóvember og í desember.
Engar veðurmælingar er að hafa frá nánasta umhverfi Öskjuvatns en nokkru austan Dyngjufjalla við Upptyppinga nærri Jökulsá á Fjöllum er ágæt veðurstöð. Hún stendur reyndar mun lægra eða í um 560 metra hæð yfir sjávarmáli. Einar segir að engu að síður gefi hún góða mynd af bæði hita- og vindafari.
Einar segir að flest bendi til að Öskjuvatn hafi lagt í byrjun desember. 4. desember hafi meðalhiti dagsins verið -17°C við Upptyppinga. Veðurfar í mars hafi hins vegar verið óvenjulegt. „Miklir SV- og S-rosar voru framan af mánuðinum og þann 2. mjög hvöss S-átt með leysingu upp í hæstu fjöll. Afar líklegt má telja að vindar og milt veður með köflum hafi náð að granda ísþekjunni á vatninu og vakir myndast. Undir lok mánaðarins þegar hlýnaði verulega á ný og öldugangur undan SV-hvassviðrinu hefur tiltölulega fljótt náð að brjóta upp og hrúga ísnum inn í norðausturhornið. Sérstaklega var bæði hvasst og milt þann 29. mars og skemmst er að minnast þess að þann dag féll einmitt hitamet marsmánaðar þegar hiti fór yfir 20 stig á Kvískerjum í Öræfum. Það var síðan 2. apríl þegar rofaði vel til að menn tóku eftir því að Öskjuvatn var orðið íslaust.“