„Vil fá að mótmæla þessari spurningu“

Pétur H. Blöndal alþingismaður.
Pétur H. Blöndal alþingismaður. mbl.is

„Ef neyðarlögin hefðu ekki verið sett hefði allt hrunið,“ sagði Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í morgun í umræðum um það hversu miklu lífeyrissjóðirnir hefðu tapað við setningu neyðarlaganna í kjölfar bankahrunsins haustið 2008.

Fjallað var á fundinum um skýrslu nefndar á vegum Landssambands lífeyrissjóða þar sem gerð var úttekt á fjárfestingarstefnu, ákvarðanatöku og áhættumati við fjárfestingar lífeyrissjóðanna í aðdraganda hrunsins og mættu meðal annars þeir sem sátu í nefndinni á fundinn en þeir voru Hrafn Bragason, fyrrverandi hæstaréttardómari sem veitti nefndinni formennsku, Héðinn Eyjólfsson viðskiptafræðingur og Guðmundur Heiðar Frímannsson heimspekiprófessor.

Arnar Sigmundsson, formaður Landssambands lífeyrissjóða, hafði áður nefnt á fundinum að setning neyðarlaganna hefði leitt til mikils taps fyrir lífeyrissjóðina og sem aftur væri eitt af því sem hefði ekki verið á ábyrgð þeirra sem fóru með ábyrgð á stjórn sjóðanna. Magnús Norðdahl, varaþingmaður Samfylkingarinnar, spurði að því hversu mikið tapið hefði verið vegna laganna.

Fram kom hjá Arnari að tap lífeyrissjóðanna sem rekja mætti til setningar neyðarlaganna væri sennilega á bilinu 75-100 milljarðar króna og fælist í því að kröfur þeirra á bankana hefðu verið færðar aftar í röð kröfuhafa á eftir innistæðueigendum. „Ég vil fá að mótmæla þessari spurningu,“ sagði Pétur á þeim forsendum sem áður segir að án neyðarlaganna hefði allt hrunið hér á landi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert