BSRB hefur ítrekað bent stjórnvöldum á mikla rýrnum kaupmáttar barnabóta á síðustu árum og stutt þá með útreikningum Hilmar Ögmundssonar, hagfræðings BSRB. Á forsíðu Fréttablaðsins í dag er fjallað um mögulegar hækkanir barnabóta til að bregðast við þeim skuldavanda sem barnafjölskyldur standa frammi fyrir.
Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins liggja endanlegir útreikningar hins opinbera ekki fyrir og telur BSRB því of snemmt að segja til um með hvaða hætti breytingarnar verði. En haft er eftir Steingrími J. Sigfússyni, efnahags- og viðskiptaráðherra, að hækkun barnabóta geti vissulega verið markvissari liður í því að aðstoða barnafjölskyldur í greiðsluvanda en 110% leiðin.
„BSRB fagnar því að sjálfssögðu að til standi að hækka barnabæturnar en minnir jafnframt á að hækka verði barnabæturnar umtalsvert til að vega upp á þeirri miklu rýrnun sem orðið hefur á kaupmætti barnabótanna á síðustu fimm árum eða svo,“ segir í frétt á vef BSRB.
„Krónutala barnabóta hefur staðið í stað frá 2009 á meðan allt verðlag hefur hækkað gríðarlega. Kaupmáttarrýrnun barnabóta hefur þar af leiðandi verið það mikil síðustu fimm árin að hjá einstæðum foreldrum á lágmarkslaunum með tvö börn er rýrnunin rúm 26% og hjá hjónum rúmlega 33%. Barnabæturnar þurfa þess vegna að hækka mjög ríflega til að vega upp á móti kaupmáttarrýrnun þeirra," segir Hilmar Ögmundsson, hagfræðingur BSRB.