Mæðgin handtekin

Kannabisræktun
Kannabisræktun Reuters

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði kannabisræktun í einbýlishúsi í umdæminu í gær. Við húsleit  var lagt hald á um 35 kannabisplöntur og tæplega 700 grömm af þurrkuðum kannabisefnum. Mæðgin voru handtekin í þágu rannsóknarinnar en við yfirheyrslu hjá lögreglu játaði sonurinn, sem er á þrítugsaldri, aðild sína að málinu, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu.

Upphaf málsins má rekja til upplýsinga sem lögreglan hafði fengið um marijúanalykt í hverfinu. Eftir að búið var að þrengja hringinn var bankað upp á í húsinu sem ræktunin fór fram. Þar urðu fyrir svörum íbúar sem voru sakleysið uppmálað og könnuðust hreint ekkert við neina kannabisræktun. Augljóst var á látbragði þeirra að hér var eitthvað mjög gruggugt á seyði enda kom það á daginn, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu.

Sonurinn á heimilinu hafði læst sig inni í þeim hluta hússins þar sem  kannabisræktunina var að finna en hann reyndi síðan að komast undan á hlaupum. Kauði var hins vegar handtekinn hið snarasta en svo fór að móðir hans fylgdi með á lögreglustöðina. Hún var allt annað en sátt við afskipti lögreglunnar, var mjög æst og sýndi mikinn mótþróa. Hún var því einnig færð í handjárn og flutt á lögreglustöð til yfirheyrslu, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu.
 
Kannabisræktun í Grafarvogi

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði kannabisræktun í fjölbýlishúsi í Grafarvogi í gærkvöld. Við húsleit var lagt hald á um 20 kannabisplöntur og ýmsan búnað sem tengdist starfseminni.

Lögreglan minnir á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert