Líst illa á lokun Laugavegar fyrir umferð

Hluti Laugavegar verður göngugata í sumar.
Hluti Laugavegar verður göngugata í sumar. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Okkur líst illa á þetta,“ segir Björn Jón Bragason, talsmaður verslunareigenda í miðborginni, en umhverfis- og samgönguráð samþykkti í morgun tillögu um göngugötur í Reykjavík í sumar. Tillögurnar fela í sér að Laugavegi verður breytt í göngugötu milli Vatnsstígs og Skólavörðustígs frá 17. júní til 20. ágúst.

Fulltrúar 48 verslunar- og fasteignaeigenda við Laugaveg afhentu í mars borgaryfirvöldum undirskriftarlista ásamt greinargerð, þar sem öllum frekari fyrirætlunum borgaryfirvalda um lokun Laugavegar fyrir bílaumferð var mótmælt. Ákveðið var hins vegar að loka þrátt fyrir þessi mótmæli.

„Ég þekki vel til í búðum þar sem er talsvert mikil velta og þar var 10-20% samdráttur í veltu í júlí í fyrra, þegar var lokað, miðað við sama mánuð árið 2010. Síðan var aukning í ágústmánuði þegar aftur var opnað fyrir umferð. Við teljum að þessar tölur sýni hversu slæmar afleiðingar það eru fyrir verslunina loka götunni,“ segir Björn.

Borgaryfirvöld hafa haldið því fram að meirihluti kaupmanna við götuna styðji að henni sé breytt í göngugötu í sumar. Björn segir þetta ekki rétt. Óformlegar kannanir sem kaupmenn hafa gert sýni hið gagnstæða.

Björn segir að það sé erfitt fyrir sumar verslanir að stunda rekstur þegar bílar megi ekki fara um götuna. Hann nefnir sem dæmi að mjög erfitt sé að reka bakarí við þessar aðstæður. Bakarí séu m.a. að selja stórar kökur sem erfitt sé að flytja nema í bíl. Hætt sé við að lokun götunnar fyrir bílaumferð þýði að verslanir við Lagaveg verði einsleitari. Þegar grónar verslanir ákveði að fara komi veikari rekstur í staðinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert