Framtíð SGS skýrist á framhaldsþingi

Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar - Iðju.
Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar - Iðju. mbl.is/Skapti

Á framhaldsþingi Starfsgreinasambandsins þann 10. maí mun fást úr því skorið hvort sambandið lifi af en hressilega hefur gustað um sambandið. Þetta sagði Björn Snæbjörnsson, formaður Starfsgreinasambandsins og Einingar-Iðju í ræðu á Ísafirði í dag. Þá sagði hann að innan verkalýðshreyfingarinnar væru einstaklingar sem væru tilbúnir að rægja og deila á samstarfsaðila sína jafnvel miklu frekar en andstæðingana.

„Það hafa oft orðið mikil átök innan verkalýðshreyfingarinnar bæði um menn og málefni og hafa slík átök ekkert gert annað en að veikja innviði okkar,“ sagði Björn í ræðu sinni.

„Það gustaði hressilega um Starfsgreinasamband Íslands og mikil spurning hvort sambandið muni lifa af. Á framhaldsþingi þess þann 10. maí næstkomandi verður úr því skorið hvernig fer. Allt bendir til þess að menn hafi slíðrað sverðin og náð sáttum.“

Björn sagðist telja það stórslys ef SGS hefði verið lagt niður. „Þar hefði farið fyrir lítið málsvari hins almenna verkamanns um allt land. En vandamálin eru mörg og ekki sér til lands í mörgum málum og sum virðast vara endalaust.“

Svo sagði Björn um vanda verkalýðshreyfingarinnar: „En vandi Verkalýðshreyfingarinnar í dag er að innan hennar eru einstaklingar sem eru tilbúnir að rægja og deila á samstarfsaðila sína jafnvel miklu frekar en andstæðinga okkar, atvinnurekendur.“

Björn talaði einnig um fjárfestingar og sagði það mikil vonbrigði að ríkisstjórnin nálgist hugmyndir um einkaframkvæmdir með gamaldags viðhorfum. Afleiðingin sé sú að mun minna hafi orðið úr framkvæmdum t.d. í vega- og jarðgangnagerð en vonir stóðu til.

„Nú er búið að reka fleyg í raðir landsbyggðarinnar og þar spila okkar ágætu þingmenn stóra rullu,“ sagði Björn.  „Við fyrir norðan viljum Vaðlaheiðargöng, þið viljið að sjálfsögðu Dýrarfjarðargöng og Austfirðingar vilja Norðfjarðargöng. Þingmenn höfuðborgarsvæðisins espa þetta síðan upp og niðurstaðan verður svo „þið komið ykkur ekki saman“ og þá verður hvergi gert neitt.

Það þarf ekki samstöðu bara í Verkalýðshreyfingunni heldur er það lífsspursmál fyrir okkur á landsbyggðinni að standa saman,“ sagði Björn m.a. í ræðu sinni á Ísafirði í dag, á baráttudegi verkalýðsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert