Færri nota heimilisbókhald

Fleiri halda heimilisbókhald nú en árið 2008.
Fleiri halda heimilisbókhald nú en árið 2008. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Þeim fækkar sem halda heimilisbókhald. Árið 2008 sögðu 37% að heimilisbókhald væri skráð á heimilinu, en í könnun sem gerð var í desember 2011 var þetta hlutfall 24%.

Þetta kemur fram í könnun sem Stofnun um fjármálalæsi lét gera í fyrra. Samskonar könnun var gerð árið 2008. Í niðurstöðum könnunarinnar segir að fjármálahegðun virtist að einhverju leyti hafa breyst milli ára. Stofnunin telur að sú niðurstaða að færri skrái heimilisbókhald komi nokkuð á óvart þar sem umræða um heimilisbókhald hefur verið nokkuð áberandi á síðastliðnum árum og ýmsar lausnir í boði til að auðvelda fólki að halda heimilisbókhald.

Fleiri þátttakendur höfðu nýtt sér yfirdráttarheimild hjá banka eða fjármálstofnun árið 2008 en árið 2011 og var munurinn marktækur. Um 37% þátttakenda höfðu nýtt sér yfirdráttarheimild árið 2008 en 29% árið 2011. Meðalupphæð yfirdráttar var einnig töluvert hærri árið 2008 en árið 2011 og var munurinn marktækur. Þegar upphæðir undir 10.000 krónum voru teknar út var meðalupphæð yfirdráttar árið 2008, 398.774 kr. en 276.392 kr. árið 2011.

Ekki höfðu átt sér stað miklar breytingar á stöðu eigna og skulda milli ára. 63,8% svarenda áttu meiri eignir en skuldir árið 2008, en þetta hlutfall var 65,3% árið 2011.

Þátttakendur höfðu álíka miklar áhyggjur af eigin fjármálum árið 2008 og árið 2011. 24% höfðu áhyggjur af fjármálum sínum árið 2011 en 22,5% árið 2008.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert