Sérstakur saksóknari hefur ákært fjóra karlmenn, fædda 1986 til 1990, fyrir skjalafals, umboðssvik, fjárdrátt og hylmingu. Þáttur hvers og eins er mismunandi en mönnunum tókst að hafa af Íbúðalánasjóði og eignarhaldsfélagi samtals tugi milljóna króna á árinu 2009.
Málið komst í hámæli síðsumars 2009 en um miðjan júlí barst efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra kæra á hendur fimm mönnum vegna skjalafals og fjársvika. Fjórir þeirra voru handteknir og hnepptir í gæsluvarðhald en látnir lausir í byrjun ágúst sama árs.
Maður sem lenti í klóm svikahrappanna lýsti því að þeir hefðu náð til sín eignarhaldsfélagi hans með því að falsa tilkynningu til hlutafélagaskrár. „Síðan seldu þeir íbúð í eigu félagsins til konu einnar, sem hafði ekki hugmynd um að brögð væru í tafli.“
Ákæran er í nokkrum liðum. Í fyrsta lagi er karlmaður fæddur 1986 ákærður fyrir skjalafals og fjársvik með því að hafa notað fölsuð skjöl til að blekkja með í lögskiptum og hafa þannig 19,8 milljónir króna af Íbúðalánasjóði 8. júní 2009. Það var andvirði falsað ÍLS-veðbréfs upp á 20 milljónir króna, sem gefið var út af óþekktum aðila í nafni tiltekins manns, án heimildar hans eða vitneskju.
Fjöldi falsaðra skjala var útbúinn og flókin flétta til að sölsa undir sig eignarhaldsfélag, leggja fram kauptilboð í fasteign og ná fjármununum og leggja þá inn á aðra reikninga, meðal annars reikninga tveggja manna sem ákærðir eru fyrir hylmingu í málinu.
Mennirnir tveir eru ákærðir til vara fyrir peningaþvætti, en þeir eru tóku upphæðirnar í kjölfarið út af reikningum sínum og tóku þátt í ávinningi af brotinu og aðstoðuðu ofangreindan mann til þess að halda ávinningi brotsins.
Þá er karlmaður fæddur 1989 ákærður fyrir skjalafals og fjársvik en hann notaði fölsuð skjöl til að blekkja í lögskiptum og hafa 19,8 milljónir króna af Íbúðalánasjóði 2. júlí 2009. Fléttan var mjög sambærileg þeirri sem áður er lýst og fjöldi falsaðra skjala notaður til þess að ná fjármununum.
Milljónirnar runnu á ný inn á bankareikninga tveggja manna, sem eru ákærðir fyrir hylmingu og til vara peningaþvætti.
Að auki er maðurinn ákærður fyrir fjárdrátt, en til vara umboðssvik, en hann tók út af reikningi eignarhaldsfélags 12 milljónir króna og færði yfir á eigin reikning og reikninga umræddra tveggja manna sem nefndir eru að ofan.
Maðurinn breytti prókúru hjá eignarhaldsfélaginu með fölsuðum undirritunum eigenda þess, og náði þannig að færa milljónirnar út af reikningi félagsins.
Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 10. maí næstkomandi.