Tveir drengir, 15 og 16 ára, voru nýverið dæmdir í 30 daga óskilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa framvísað fölsuðum vegabréfum við komuna til Íslands í lok apríl. Forstjóri Barnaverndarstofu segir að íslensk börn hafi aldrei hlotið jafn harða refsingu. Þetta kom fram í kvöldfréttum RÚV
Fram kemur á vef RÚV að drengirnir hafi komið til landsins 25. apríl sl. með flugi til Íslands. Við vegabréfaeftirlit á Keflavíkurflugvelli hafi drengirnir framvísað fölsuðum vegabréfum og verið handteknir. Þá segir að drengirnir hafi játað brot sín og hafi verið dæmdir til 30 daga óskilorðsbundinnar fangelsisvistar 30. apríl.
Haft er eftir Braga Guðbrandssyni, forstjóra Barnaverndarstofu, að dómurinn komi mjög á óvart, enda séu ekki fordæmi fyrir því að svo ungt fólk sé dæmt í fangelsi fyrir brot af þessu tagi.