Það var ófögur sjón sem blasti við starfsfólki Þjóðarbókhlöðunnar þegar það mætti til vinnu í gærmorgun en þá kom í ljós að einhver hafði yfir nóttina barkarflett átján ára gamla ösp sem stendur suðvestan við bygginguna.
Ólafur Guðnason, hússtjóri Þjóðarbókhlöðunnar, segir að svo virðist sem einhvers konar áhaldi, líklega hníf, hafi verið beitt við verkið en ómögulegt sé að geta sér til um hvað viðkomandi gekk til.
„Það er stórfurðulegt að einhverjum skuli detta í hug að gera þetta. Maður skilur bara ekki tilganginn,“ segir Ólafur og bætir því við að menn hafi ekki orðið varir við skemmdarverk af þessu tagi við Þjóðarbókhlöðuna áður.