Fórnarlömb nauðgana sjá nafn sitt

Sviðsett mynd af fórnarlambi kynferðisofbeldis á tjaldsvæði.
Sviðsett mynd af fórnarlambi kynferðisofbeldis á tjaldsvæði. mbl.is/Sverrir

Fjölmiðlar bera mikla ábyrgð þegar kemur að umfjöllun um útihátíðir. Að mati lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins er umfjöllun þeirra um verslunarmannahelgina of mikil, alltof einhliða og alltof fyrirsjáanleg. „Fjölmiðlar ættu að slappa af og „hæpa“ þessa helgi ekki svona upp.“

Þáttur fjölmiðla var meðal þess sem tekið var til umræðu í pallborðsumræðum á morgunfundi Náum áttum sem haldinn var á Grand hóteli í morgun en yfirskrift fundarins var Sumarhátíð - gaman saman, sýnum ábyrgð!

Við hæfi er að hefja grein um ábyrgð fjölmiðla á að skýra enskuslettu Stefáns Eiríkssonar lögreglustjóra, en hann talaði um að „hæpa upp“ (e. hype up) helgina. Þar á hann við að fjölmiðlar veki athygli á verslunarmannahelginni eða þeim hátíðum, sem haldnar eru þá helgi, með óeðlilegum hætti, þannig að jaðri við auglýsingaskrum.

Ýta undir væntingar og gera út á óhamingju

Umræðan um þátt fjölmiðla snerist um tvennt: annars vegar að fjölmiðlar ýti undir væntingar unga fólksins með glysfréttum fyrir verslunarmannahelgina og útihátíðir almennt. „Fólk fer með gríðarlegar væntingar, það á aldeilis að detta í það og gera eitthvað nýtt og spennandi. Það á að takast á við þetta verkefni,“ sagði Eyrún B. Jónsdóttir, verkefnastjóri á Neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis.

Hins vegar geri fjölmiðlar út á óhamingju hátíðargesta með upptalningu á því, sem miður fór, og færi kannski í stílinn til auka fréttagildið. Það þykir mörgum skjóta skökku við. „Mikið var fjallað um tvö fíkniefnabrot sem komu upp á Írskum dögum á síðasta ári. Minna um það sem lögreglan benti á, að það væri minna en venjulega helgi á Akranesi,“ sagði Tómas Guðmundsson, framkvæmdastjóri Akranesstofu.

Eins og áður segir var lögreglustjórinn einn þeirra sem gagnrýndu umfjöllun fjölmiðla. Stefán þekkir málið frá báðum hliðum en hann starfaði eitt sinn sjálfur sem blaðamaður, meðal annars á Morgunblaðinu. Hann sagðist meðal annars hafa fjallað um verslunarmannahelgina og það hafi ávallt verið eftir sömu forskrift, þeirri sem notuð er enn í dag.

Hann sagði þann misskilning ríkja að það sé lögmál að fólk vilji aðeins lesa og sjá neikvæðar fréttir. „Við höldum úti okkar eigin fjölmiðli, á Facebook, og þær fréttir sem við sendum frá okkur og ná mestri dreifingu eru jákvæðu fréttirnar. Þetta er spurning um ábyrga fjölmiðlun.“

Í þessu sambandi minntist Eyrún á að fjölmiðlar séu þegar farnir að hafa samband við Neyðarmóttökuna á föstudeginum og spyrja út í hversu mörg kynferðisbrot hafi verið framin. Hún sagði umræðuna eftir útihátíðir yfirþyrmandi. „Ekki má gleyma því að þarna er fólk að baki, og fórnarlömb nauðgana sjá nafnið sitt í blöðunum þótt það standi ekki þar berum orðum. Það þarf að lifa með þessu.“

Kastljósið af dauðadrukknu fólki

Meðal þeirra sem tóku til máls var Steinunn Bergmann, félagsráðgjafi hjá Barnaverndarstofu. Hún sagði mikilvægt að fjölmiðlar beini sjónum sínum í auknum mæli að foreldrum og mótshöldunum. Til að mynda ætti að vekja stöðugt athygli á aldurstakmarki á útihátíðir en það geti auðveldað foreldrum að neita börnunum sínum um að fara.

Eyrún bætti því við að einnig eigi spyrja mótshaldara út í öryggi og skipulag útihátíða. Kastljósið eigi ekki að vera á dauðadrukknu fólki en fremur fjölskyldum. Fá nýja sýn á hátíðirnar.

Fleiri tóku þátt í umræðunni, bæði þeir sem sátu í pallborði og fundargestir. Meðal þess sem kom fram var að fjölmiðlar ættu að breyta kúrsinum og að þeir mættu fjalla meira um fjölskylduna og hvað hún gerir á sumrin. Tala um jákvæðar hliðar þess að skemmta sér á sumrin.

Kátir þjóðhátíðargestir.
Kátir þjóðhátíðargestir. mbl.is
Þjóðhátíð í Eyjum
Þjóðhátíð í Eyjum mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert