Guttar veifandi viskípelum

Besta útihátíðin.
Besta útihátíðin. mbl.is/Gunnar Aron Ólason

Vinsælt hefur verið að halda útihátíðir á Suðurlandi undanfarin ár. Í fyrrasumar fór meðal annars fram Besta útihátíðin og verður hún haldin aftur í sumar, þá enn betri. Ýmsir vankantar voru þó á skipulagningu hátíðarinnar í fyrra og blöskraði félagsráðgjafa hversu mikið var af ungum krökkum.

Besta útihátíðin - og fleiri útihátíðir á Suðurlandi - var til umræðu á morgunfundi Náum áttum sem haldinn var á Grand hótel í morgun. Þar hélt tölu Rúnar Halldórsson, félagsráðgjafi hjá félagsþjónustu Rangárvalla- og V-Skaftafellssýslu, og fór yfir reynslu manna á svæðinu.

Til að byrja með fór Rúnar yfir afstöðu heimamanna til útihátíða á svæðinu en hann segir að það sé svolítil sérstaða, að utanaðkomandi einstaklingar halda þessar hátíðir. „Það er fólk sem segir betra ða halda skipulagða útihátíð með gæslu og umsjón heldur en að unglingarnir sjálfir skipuleggi það að fara í hópum og tjalda eftirlitslausir,“ sagði Rúnar. „Aðrir segja hins vegar, að sveitarfélag sem leyfir svona útihátíð leggi blessun sína yfir unglingadrykkju og leggi virðingu þess að veði.“

Spretta alltaf upp útihátíðir

Í sögulegu samhengi, sagði Rúnar, er ekki hægt að koma í veg fyrir útihátíðir, þær hafi verið fylgifiskur Íslendinga síðustu öldina. Hægt sé að taka fyrir þær á einum stað en þær spretta þá upp á öðrum.

Hann sagði að finna þurfi út hvað sé óheppilegt og óæskilegt við útihátíðir sem haldnar eru, hverju þurfi að sporna við og stoppa algjörlega. „Mín niðurstaða er að það séu þrír til fjórir hlutir. Í fyrsta lagi að þar séu ungmenni undir 18 ára ein og sér. Í öðru lagi er það drykkja og fíkniefnaneysla. Í þriðja lagi líkamlegt ofbeldi og slagsmál og fjórða lagi kynferðislegt ofbeldi. Þetta viljum við ekki sjá á útihátíðum og eflaust hvergi.“

Til þess að þetta geti gengið þurfi allir að vinna saman, þeir sem komi að útihátíðum og þá helst þurfi að sjálfsögðu gott samtarf við mótshaldara. Mikilvægt sé að vinna saman en að ekki sé togstreita á milli manna.

Stendur til að bæta ýmislegt

Rúnar fór yfir upplifun sína af Bestu útihátíðinni í fyrra, og sagðist fyrst hafa orðið fyrir losti þegar hann sá hvernig fara átti með þá sem voru undir verulegum áhrifum áfengis og vímuefna. „Það voru fengnir gámar, dauðagámar svokallaðir, og þangað átti að flytja fólkið.“ Við þetta hafi verið gerðar athugasemdir og stendur til að bæta úr fyrir hátíðina í sumar.

Um tíu þúsund manns voru á hátíðarsvæðinu í fyrra og strax komu upp vandræði þegar fólkið mætti á svæðið. Þjóðvegurinn tepptist í langan tíma og því minnkaði gæsla þegar hleypt var inn á svæðið. „Mér blöskraði hvað það var mikið af ungum krökkum. Það var dapurlegt að sjá, á stað þar sem lögregla var og björgunarsveitir, horfði maður á tólf eða þrettán ára gutta veifa viskípelum. Og enginn virðist geta gert neitt. Það var þarna mikið af fólki undir aldri.“

Meðal þess sem stendur til að bæta úr, í góðri samvinnu við mótshaldara, er að aðgangur fyrir 18 ára og yngri verður harðlega bannaður. Einnig á að koma upp athvarfi fyrir utan hátíðarsvæðið fyrir þau börn sem komast þangað inn og eru undir áhrifum. „Skilaboðin verða skýr, að börn eiga ekki heima á svæðinu. Þau verða flutt burtu og foreldrar látnir sækja þau.“

Rúnar sagði samvinnu við mótshaldarann góða og að lagt sé upp með að allt fari vel fram í sumar. Þó tók hann fram að ekki sé vitað um að neitt kynferðisbrot hafi komið upp á hátíðinni í fyrra.

Að neðan má sjá myndband unnið fyrir farsímafyrirtækið Ring en í því er fjallað um Bestu hátíðina sem haldin var í fyrra.

Hljómsveitin Quarashi tróð upp á Bestu útihátíðinni í fyrra.
Hljómsveitin Quarashi tróð upp á Bestu útihátíðinni í fyrra. mbl.is
Vefsíða Bestu útihátíðarinnar.
Vefsíða Bestu útihátíðarinnar.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert