Logaði stafna á milli 2007

Mynd af brennu á Írskum dögum 2007.
Mynd af brennu á Írskum dögum 2007. Skjáskot/Youtube

Bæjarhátíðir spruttu upp í öllum landshlutum og nokkrar í hverjum, eftir að samgönguráðuneytið hratt af stað átaki á tíunda áratug síðustu aldar og hvatti til slíkra hátíða. Sumar þeirra lögðust hins vegar af vegna þess að bæjarbúum ofbauð hvað þeim fylgdi, en bæirnir voru nánast lagðir í rúst.

Sama þróun var á Akranesi þar sem Írskir dagar eru haldnir árlega. Tómas Guðmundsson, framkvæmdastjóri Akranesstofu, fór yfir framkvæmd og forvarnir í tengslum við Írska daga á morgunfundi Náum áttum sem haldinn var á Grand hóteli í morgun, en þar var rætt um útihátíðir og bæjarhátíðir.

Áður hefur á mbl.is í dag verið greint frá erindi um kynferðisbrot á útihátíðum og svo erindi um Bestu hátíðina á Suðurlandi og þeim úrbótum sem stendur til að gera í tengslum við hana í sumar.

Erindi Tómasar var hins vegar um bæjarhátíðir og helst um þá hátíð sem hann sér um, Írska daga. Hann hóf mál sitt á því að rekja sögu bæjarhátíða en hann var sjálfur starfsmaður samgönguráðuneytis þegar hvatt var til slíkra hátíða.

Gengu um og kveiktu í tjöldum

En hvað varðar Írska daga sagði Tómas að þróunin hafi verið þar svipuð og annar staðar. „En það urðu þáttaskil árið 2007. það var í fyrsta skipti sem ég heyrði hugtakið SMS-hátíð. Það ár logaði allt stafna á milli. Ungir menn gengu um svæðið og kveiktu í tjöldum, á meðan fólk var inni í þeim. Það var mikið slegist og þegar reynt var að slökkva í brennandi tjöldum rifu menn slökkvitækin af viðkomandi og sprautuðu á þá.“

Tómas segir að mikill þrýstingur hafi verið eftir hátíðina á sveitarstjórnarmenn að blása bæjarhátíðina af. „Skagamenn sögðu það hins vegar ekki koma til greina, betra væri að standa í lappirnar og leita lausna.“

Ráðist hafi verið í mikla naflaskoðun og niðurstaðan varð sú að hækka aldurstakmarkið á tjaldsvæðin í 23 ár. Hins vegar væri gerð undantekning ef yngra fólk væri með börn sín meðferðis. Það hafi verið afar óvinsælar aðgerðir, en hátíðin tókst þó ljómandi vel. Engu að síður var aldurstakmarkið lækkað aftur ári síðar, þ.e. 2009. „Og viti menn, það fór allt í sama horfið aftur. Þannig að síðan höfum við haldið okkur við þessa línu.“

Einnig hafi komið í ljós, meðal annars í gegnum náið samráð við lögreglu, að kjarninn í þeim hóp sem veldur óþægindum séu sömu einstaklingar sem ferðast um í flokkum hvert á land sem er og valdi leiðindum og veseni.

Gengið vel eftir aðgerðirnar

Tómas sagði að með Írskum dögum sé verið að opna bæinn og fyrst og fremst sé um skemmtun fyrir heimamenn að ræða. Aðkomufólk sé þó að sjálfsögðu boðið velkomið og ávinningur sveitarfélagsins snýst helst um ímynd.

Hátíðin er ekki auglýst mikið og kvöldskemmtanir takmarkast við eina kvöldtónleika. Tómas segir að þeim sé lokið fyrir miðnætti og hafi aðallega verið komið á fót að beiðni lögreglu vegna kvartana um of margar söngskemmtanir í heimahúsum. „Eftir að við gripum til þessara óvinsælu aðgerða hefur þetta gengið furðanlega vel.“

Tómas hugðist einnig sýna fundargestum myndband af Írskum dögum árið 2007 en vegna tæknilegra örðugleika reyndist það ekki hægt. Það má hins vegar finna hér að neðan.

Írskir dagar á Skaganum
Írskir dagar á Skaganum mbl.is/Sigurður Elvar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert