Útihátíðir sem manndómsvígslur

Góð stemmning var fyrir framan sviðið á Eldborg.
Góð stemmning var fyrir framan sviðið á Eldborg. mbl.is/Árni Sæberg

Eldborgarhátíðin árið 2001 markaði vatnaskil þegar kom að útihátíðum á Íslandi. Tilkynnt var um fimmtán kynferðisbrot á hátíðinni og var yngsta fórnarlambið þrettán ára. Af þessum fimmtán málum voru tvö kærð til lögreglu og annað þeirra endaði fyrir dómi, eftir tvö og hálft ár í réttarkerfinu.

Þetta kom fram í máli Eyrúnar B. Jónsdóttur, verkefnastjóra hjá Neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis á morgunverðarfundi Náum áttum sem haldin var á Grand hótel í morgun. Segja má að með fundinum hafi formleg umræða um útihátíðir sumarsins hafist, og mátti heyra gamalkunnugt stef, þ.e. þær hættur sem beri að varast.

Þó ber að taka fram að þó svo umræðan á fundinum hafi verið að töluverðu leyti neikvæð kom engu að síður skýrt fram að ástandið hafi batnað mjög á síðustu tíu árum, og bjartsýni ríki um framtíð útihátíða. Tvennt var nefnt til sögunnar sem skýrt getur, alla vega hluta, þann árangur. Annars vegar áðurnefnd Eldborgarhátíð árið 2001 og hins vegar að Unglingalandsmót Ungmennafélags Íslands var fært yfir á verslunarmannahelgi upp úr aldamótum.

Gleymir aldrei Eldborgarhátíðinni

Eyrún fjallaði aðeins um Eldborgarhátíðina. Hún sagði að búist hefði verið við þrjú þúsund manns en um átta þúsund hafi mætt á svæðið. Hátíðin var haldin á víðavangi, gríðarlega lítill viðbúnaður hafi verið og algjörlega ófullnægjandi. „Ég var þarna á þessu svæði og gleymi því aldrei,“ sagði Eyrún sem tók einnig saman fjölda kynferðisbrota sem tilkynnt var um á hátíðinni. Hún sagði yngsta fórnarlambið hafa verið þrettán ára gamalt og það elsta 25 ára.

Þá fór hún yfir tilkynnt kynferðisbrot til Neyðarmóttökunnar árin 2000-2011. Árið 2001 skar sig þar úr en á öllum útihátíðum og bæjarhátíðum var tilkynnt um 21 kynferðisbrot. Næst flest voru þau árið 2004 en þá voru þau ellefu, þau voru níu í fyrra og fimm árin 2010 og 2009. Þar er aðeins um tölur frá Neyðarmóttökunni að ræða.

Það sem gerðist eftir Eldborg var, að gagnrýnin samfélagsleg umræða og styrking til foreldra í uppeldishlutverki skilaði betri árangri og breytti ásýnd útihátíða. „Það eru færri eftirlitslausir unglingar á útihátíðum. Og það hvetur ekkert foreldri lengur sextán ára ungling sinn til að kaupa miða til Vestmannaeyja eða á aðra útihátíð, eins og var á Eldborg,“ sagði Eyrún.

Æsingurinn hefst í sumarbyrjun

En þó svo ástandið hafi breyst til batnaðar, mótshaldarar reyni frekar eftir fremsta megni að halda unglingum undir átján ára frá hátíðum sínum sem og foreldrar, er ekki þar með sagt að allt sé í himnalagi. Því fer fjarri. Eyrún sagði að enn sé litið á útihátíðir sem manndómsvígslur, æsingurinn sem hefjist strax í sumarbyrjun geri það svo að verkum að væntingarnar byggist upp hjá unga fólkinu og þegar að hátíðinni kemur er væntingaprósentan orðin alltof há.

Ennfremur vísaði Eyrún til þess að skoða verði tengsl kynferðisbrota og áfengisneyslu. Ákveðin áhættuhegðun sé í gangi og ekki þýði að fara í varnarbaráttu þegar minnst sé á það. Hún vísaði til þess að í byrjun árs hafi íslenskar konur náð körlum í áfengisdrykkju og til þess að á árunum 2003 til 2007 hafi 65,5% kvenna sem leituðu til Neyðarmóttökunnar neytt áfengis fyrir brotið.

Nánar sagði Eyrún um vitundarástand þeirra kvenna, að 44% voru í áfengisdái þegar brotið var gegn þeim, og alls 77% sem voru of drukknar til að vita hvað var að gerast eða til að stjórna eigin hegðun.

Eyrún áréttaði þó, að með því að taka þessa umræðu sé ekki verið að segja konurnar sjálfar sekar. Of mikið hafi verið um að leggja áherslu á fórnarlömbin og hegðun þeirra frekar en eðli glæpsins. Þetta viðhorf sé enn algengt og verði að breyta.

Áfengi mest notaða nauðgunarlyfið

Sjónvarpsmaðurinn Sölvi Tryggvason var fundarstjóri á fundinum í morgun og hann spurði Eyrúnu eftir erindi hennar, hvort segja mætti að áfengi væri mest notaða nauðgunarlyfið á Íslandi. Eyrún játti því og sagði áfengisómenningu tröllríða samfélaginu, en fólk vilji ekki horfast í augu við það. Hún tók dæmi um að fólk segi oft að því hafi verið byrlað einhverju því það hafi ekki lent í viðlíka aðstæðum áður, þ.e. lent í óminnisástandi. Fólk vilji ekki horfast í augu við það, að hægt sé að missa stjórn á aðstæðum undir áhrifum áfengis.

Engu að síður og hvað allt annað varðar sagði Eyrún að lokum í erindi sínu, að þeir sem vinni að þessum málum og hafi gert í áraraðir verði að vera bjartsýnir enda séu til dæmis fleiri að koma inn til að vinna í vandanum. Hún sagðist telja að hægt sé að breyta viðhorfum, það hafi gerst ef litið sé til fortíðar og geti enn, til batnaðar.

Fólk á útihátíð.
Fólk á útihátíð. mbl.is/Margrét Þóra
Hundurinn Bassi leitar að fíkniefnum á Bakkaflugvelli.
Hundurinn Bassi leitar að fíkniefnum á Bakkaflugvelli. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert