Boðaður hefur verið fundur í atvinnuveganefnd Alþingis á morgun til að ræða um kvótafrumvörpin. Lilja Rafney Magnúsdóttir, varaformaður nefndarinnar, segir að frumvörpin verði ekki afgreidd úr nefndinni á morgun, en það verði gert síðar í vikunni.
„Það verða gerðar breytingar á frumvörpunum,“ segir Lilja Rafney, en vill ekki tjá sig um þær efnislega. Hún segir að verið sé að vinna að breytingatillögum en þær verði þó ekki lagðar fram á fundi nefndarinnar á morgun. Á fundinum verði rætt um málsmeðferðina.
Það eru miklar annir hjá atvinnuveganefnd þessa dagana, en auk kvótafrumvarpanna er hún líka að fara yfir umsagnir um rammaáætlun. Lilja Rafney segir vel ganga að fara yfir umsagnir um rammaáætlun en þær eru fjölmargar. Nefndin ætli sér einnig að ljúka því máli fyrir þinghlé.