Brenna undan sterkum geislum sólar

Í sumarblíðu við Hofsós.
Í sumarblíðu við Hofsós. mbl.is/Sigurgeir

Á sólríkum, heiðskírum degi er mjög auðvelt að brenna á Íslandi með tilheyrandi óþægindum og skemmdum á húð. Þetta segir húðlæknir sem hefur mælt styrkleika útfjólublárra geisla sólar frá árinu 2009. Margir sólbrunnu um helgina enda voru geislar sólar sterkir og verða áfram næstu daga. 

Um hvítasunnuhelgina fór svo kallaður útfjólublár stuðull (ÚF-stuðull) upp fyrir 5 stig á höfuðborgarsvæðinu, sem þýðir að sólvörn er nauðsynleg til að forðast bruna. ÚF-stuðullinn er alþjóðleg skilgreining sem segir til um hversu sterkir geislar sólarinnar eru á skalanum 1-11. Á Íslandi hefur ÚF-stuðull sólargeisla hæst mælst 7. 

Óvarin húð getur brunnið á klukkutíma

„Eftir því sem stuðullinn er sterkari þeim mun skemmri tíma þolin húðin í sólinni án þess að brenna. Þá daga sem stuðullinn fer yfir 3 eigum við að nota sólarvörn, ég tala nú ekki um þegar hún fer hærra og stuðullinn er milli 5 og 6 eins og þessa dagana. Það þýðir að ef maður er óvarinn fer húðin að brenna á klukkutíma,“ segir Bárður Sigurgeirsson læknir hjá Húðlæknastöðinni. 

Staðreyndin er sú að geislar sólar geta verið afar sterkir hér á Íslandi og þegar við bætist hversu lengi sólin er hátt á lofti og hversu hreint loftið er gjarnan er hætt við því að útiveru fylgi sólbruni sé aðgát ekki höfð. Litlar upplýsingar hafa verið um styrk útfjólublárra geisla hér á landi, en Bárður hefur frá árinu 2009 mælt og rannsakað geislun frá sólinni og birtir upplýsingarnar jafnóðum á netinu. 

Sortuæxli orðin algengari

„Þetta er bara þjónusta við almenning og áhugamál hjá okkur,“ segir Bárður og bendir á að sólbruni er einn helsti áhættuþáttur fyrir húðkrabbameinum og tíðni nýgengis sortuæxla hefur margfaldast undanfarin ár á Íslandi, sérstaklega hjá ungu fólki. 

Mikil aðsókn var jafnt í sundlaugar sem á golfvelli í góðviðrinu um helgina og uppskáru margir rauðbleika húð fyrir vikið. Samkvæmt Veðurstofu Íslands heldur heiðríkjan áfram út vikuna. Ský og rigning auk mengunar og móðu að ógleymdu ósonlaginu eru meðal þess sem dregur úr styrk sólargeislanna. Þegar sólin er hæst á lofti stóran hluta dags og loftið er tært eins og það jafnan er á Íslandi er lítið sem dregur úr geisluninni. Full ástæða er því til að draga fram sólarvörnina.

Skaðbruni á Hvannadalshnúk - sólin eins og í Afríku

Með hækkandi sól hefur styrkur útfjólubláu geislanna aukist, í dag mælast þeir um 5,4 stig í Reykjavík og 5,5 stig í Borgarfirði. Bárður segir að yfir hásumarið sé styrkur sólargeislanna jafnan á milli 5 og 6 en hafi hæst mælst 7 hér á landi. Sterkust er sólin um klukkan hálftvö síðdegis, en þá er í raun hádegi hér á landi.

Uppi á jökli getur sólin hins vegar auðveldlega orðið sterkari en hún er við Miðjarðarhafið, að sögn Bárðar. Stuðullinn hækkar eftir því sem hærra er farið yfir sjávarmál, auk þess sem snjórinn endurvarpar honum af krafti. „Á svona degi eins og í dag getur styrkur geislanna á Hvannadalshnúk verið álíka og í Afríku, enda höfum við fengið fólk á síðustu vikum sem kemur skaðbrunnið ofan af jökli af því það áttar sig ekki á þessari staðreynd.“

Bárður segir þó að sá hugsunarháttur sé á undanhaldi að sólarvörn sé bara þörf í útlöndum. „Það hefur sem betur fer orðið mikil breyting þar á, það er fullt af fólki sem notar sólarvörn reglulega á Íslandi, enda er þörf á því. Við húðlæknar þekkjum það, við erum með fullt af sjúklingum sem eru í áhættuhópum bæði varðandi húðkrabbamein og sortuæxli. Það er að aukast, sérstaklega hjá ungu fólki, því eftir því sem við höfum það betra og getum ferðast meira og notið útiveru á Íslandi þá fáum við þessi vandamál frekar.“

ÚF-stuðul sólargeisla í Reykjavík má sjá hér og í Borgarfirði hér. Bárður segist hafa hug á því að setja upp mæla á fleiri stöðum á landinu við tækifæri.

Það er hæglega hægt að brenna í klukkustundar löngu hádegishléi …
Það er hæglega hægt að brenna í klukkustundar löngu hádegishléi ef engin er sólarvörnin. mbl.is/Gísli Baldur
Sumarblíða í Nauthólsvík
Sumarblíða í Nauthólsvík Mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert