Í júní mun einn fremsti sálfræðingur Bandaríkjanna koma til landsins og halda námskeið og fyrirlestra. Á fjörutíu ára ferli hefur hann mótað meðferð og rannsóknir á samböndum para af öllum gerðum. Með því að greina samtöl og samskipti getur hann spáð um framtíð para með yfir 90% nákvæmni.
John Gottman hóf rannsóknir sínar fyrir rúmum 40 árum og með greiningu á hegðun para og nákvæmum mælingum á líkamsstarfsemi þeirra á sama tíma hefur hann náð merkilegum árangri við að kortleggja hvað greinir góð sambönd frá slæmum samböndum. Þessar upplýsingar hefur hann nýtt til að búa til meðferð og ráðgjöf sem hefur náð merkilegum árangri við að snúa samböndum sem eru á rangri leið til hins betra. Hann t.a.m. valinn einn af tíu mikilvægustu meðferðarsérfræðingum síðastliðinna 25 ára af fagtímaritinu PsychoTherapy Networker.
Margt breyst á undanförnum áratugum
Hann segir ýmislegt hafa breyst í sinni tíð ekki síst hvað varðar samskipti fjölskyldna. Kvennahreyfingin hafi t.d. hrint breytingum af stað innan hjónabanda. Hann segir eina róttækustu breytinguna hvað þetta varðar hafa verið þegar karlmenn fóru að vera viðstaddir fæðingar barna sinna. Upphafið að því var þegar maður að nafni John Quinn handjárnaði sig við konu sinna þegar hún fékk hríðir. Eina ráðið var því að leyfa fæðingunni að fara fram áður en klippt var á handjárnin og farið var með Quinn í fangelsi. En þetta var upphafið að ákveðinni bylgju og Gottman segir það breyta miklu fyrir karlmenn að verða vitni að fæðingum. Sýn þeirra á lífið breytist og virðing þeirra fyrir konum eykst. Ofan á þetta séu konur farnar að vera betur menntaðar og afla meiri tekna sem breyti dýnamík á milli kynjanna enn frekar sem Gottman segir að hafi aukið almenna hamingju fólks.
Nánar var fjallað um Gottman í Sunnudagsmogganum.