Þrengingum þjóðarinnar ekki lokið

Lilja Mósesdóttir, þingmaður utan flokka.
Lilja Mósesdóttir, þingmaður utan flokka. mbl.is/Ómar

Lilja Mósesdóttir, þingmaður utan flokka, sagði við eldhúsdagsumræður á Alþingi í kvöld að í hruninu hefði skjaldborg verið slegið um þá sem hefðu skuldsett sig mest og átt eignir á ríkistryggðum bankabókum.

Hún sagði að byrðarnar sem hefðu verið lagðar á þá sem sýndu ráðdeild þyngdust sífellt og að stöðugt fjölgaði í hópi þeirra sem hefðu engin ráð og sæju fram á vanskil og gjaldþrot.

Lilja sagði að kreppan hefði skapað tækifæri til að ná fram réttlæti, þar sem ríkir töpuðu eignum sínum og ofurlaun lækkuðu. Ríkið hefði hins vegar í nafni skjaldborgar ýtt undir eignatilfærslu með því að standa vörð um verðtrygginguna. Launamunur ykist á kostnað kvenna og annarra sem minnst mættu við því.

Hún sagði svo komið að margir á landsbyggðinni ættu ekki lengur kost á grunn-velferðarþjónustu nema með því að ferðast langar leiðir um vegakerfi sem ekki hefði verið hægt að viðhalda vegna afborgana af gagnslausum og rándýrum lánum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Þá sagði Lilja þrengingum þjóðarinnar ekki lokið en sterk hagsmunöfl ætluðu sér að koma 1000 milljarða einkaskuldsetningu yfir á almenning með gengishruni eða útgáfu ríkisskuldabréfa í erlendri mynt.

Hvatti hún þjóðina til að rísa upp og koma í veg fyrir að börnin hennar yrðu gerð að skuldaþrælum. „Hættum að bíða eftir utanaðkomandi aðstoð,“ sagði Lilja og hvatti til þess að á Íslandi hæfist uppbygging samfélags þar sem allir fengju að njóta sín og þar sem hugsjón ætti sér framtíð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert