Ekkert samkomulag hefur enn náðst um það hvenær þingið hætti störfum en þinglok áttu samkvæmt áætlun að vera fyrir síðustu helgi. Fjölmörg mál eru enn á dagskrá þingsins og þar á meðal ýmis stór mál sem ríkisstjórnin hefur lagt áherslu á að verði kláruð fyrir þinglokin.
Formenn stjórnarflokkanna hittust seinnipart dags í gær til þess að ræða málin en engin niðurstaða varð á þeim fundi. Hugsanlegt er að slíkur fundur fari einnig fram síðar í dag en hann hefur þó ekki verið boðaður samkvæmt heimildum mbl.is.