Samstaða krefst afnáms verðtryggingar

Merki Samstöðu, flokks lýðræðis og velferðar.
Merki Samstöðu, flokks lýðræðis og velferðar.

Stjórn Samstöðu, flokks lýðræðis og velferðar, krefst þess að strax verði hafist handa við afnám verðtryggingar. Samhliða fari fram 20% leiðrétting á fasteignalánum til að koma í veg fyrir að fjölmörg heimili fari í þrot á næstu misserum vegna viðvarandi verðbólgu.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá stjórninni.

Þar segir að almenn niðurfærsla dragi úr útlánatapi banka og Íbúðalánasjóðs og auki eftirspurn í samfélaginu.

Bent er á tvær leiðir til að fjármagna leiðréttinguna. „Önnur felst í útgáfu skuldabréfs sem greitt verður niður með skatti á hagnað banka og hin í upptöku nýkrónu á mismunandi gengi til að færa niður höfuðstól fasteignalána.“

„Skuldsett heimili geta ekki tekið að sér að fjármagna skuldbindingar lífeyrissjóða. Hætta verður skattlagningu á útgreiðslur úr lífeyrissjóðum og taka upp skatt á inngreiðslur til að fjármagna m.a. lífeyri úr almannatryggingakerfinu sem dugar til framfærslu,“ segir í yfirlýsingunni.

Stjórn Samstöðu telur að skuldavandinn verði ekki leystur nema gripið verði til almennrar leiðréttingar til viðbótar við sértæk úrræði ríkisstjórnarinnar sem eru „tímafrek og dýr“. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert