Fjöldi fagfólks mun sækja námskeið sem Gottman-hjónin halda i Háskólanum í Reykjavík á morgun. Hátt í hundrað starfsmenn úr ólíkum geirum heilbrigðisstéttanna munu hlýða á hjónin sem hafa verið í fararbroddi í rannsóknum á samskiptum para og fjölskyldna á undanförnum áratugum ásamt meðferð í vanda. Sérstaklega hefur John Gottman fengið mikla viðurkenningu fyrir störf sín.
John og Julie Gottman eru að sögn Valgerðar Snæland Jónsdóttur náms- og starfsráðgjafa, sem flytur hjónin til landsins ásamt Ólafi Grétari Gunnarssyni sem situr í barnaverndarnefnd Reykjanesbæjar, þekktasta sálfræðipar í heimi. Þau kynntust Gottman-hjónunum þegar þau sóttu námskeið þeirra í Istanbúl í Tyrklandi. „Þar sóttu um hundrað manns námskeiðið en hér verða þeir um áttatíu, sem er athyglisvert þar sem talið er að um 15 milljónir manns búi á svæðinu í kringum Istanbúl,“ segir Valgerður.
Námskeiðið fyrir fagfólk verður í Háskólanum í Reykjavík á morgun og á föstudag en í dag verður námskeið fyrir pör í Norðurljósasalnum í Hörpu þar sem 300 manns hafa skráð sig til leiks. Ásamt þeim Ólafi og Valgerði koma Rannsóknastofnun í barna- og fjölskylduvernd við félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands og sálfræðisvið Háskólans í Reykjavík að viðburðunum.