Sagði alþingismann vera drukkinn

mbl.is/Hjörtur

„Mér sýnist einn þeirra þingmanna sem fara mikinn í þingsal í kvöld vera undir áhrifum áfengis og myndi vilja að forseti þingsins kannaði það frekar,“ sagði Björn Valur Gíslason, þingmaður Vinstri grænna, á Alþingi skömmu fyrir klukkan eitt í nótt. 

Kristján Þór Júlíusson kom því næst í ræðustól og hvatti forseta þingsins til að slá botn í þingfundinn. Hann sagðist telja að þingmönnum veitti ekki af hvíldinni.  

Á meðan á máli hans stóð mátti heyra þingmenn karpa um orð Björns Vals. „Ég hef ekki smakkað dropa hér í kvöld,“ mátti heyra þingmann segja stundarhátt.

Forseti þingsins bað þingmenn að halda þeim umræðum áfram í hliðarsal.

Skömmu síðar kom Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í ræðustól og sagði að ummælum Björns Vals hefði verið beint gegn sér. „Hann brigslaði mönnum um að vera drukknir í ræðustól og þegar eftir því var gengið staðfesti hann að hann ætti við mig,“ sagði Jón. „Ég get upplýst að ég hef ekki bragðað áfengi,“ sagði hann og bætti því við að ummælin bæru vott um málefnaþurrð og lágkúru í málflutningi þingmanna.

Jón krafðist þess að forsætisnefnd yrði kölluð saman og að ummæli Björns Vals fengju þar viðeigandi meðferð.

Þingfundi lauk skömmu fyrir klukkan tvö í nótt og verður haldið áfram klukkan 10:30 í dag. Hann hefst á óundirbúnum fyrirspurnatíma og síðan heldur umræða um veiðigjöld áfram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert