Opnað á dreifingu Kóransins

Með nýju reglunum er opnað á dreifingu Kóransins í grunnskólum …
Með nýju reglunum er opnað á dreifingu Kóransins í grunnskólum Hafnarfjarðar eins og annarra trúarrita sem notuð eru í kennslufræðilegum tilgangi. Kristinn Ingvarsson

Með nýjum viðmiðunarreglum um samskipti leik- og grunnskóla Hafnarfjarðar við trúar- og lífsskoðunarfélög er opnað á að múslímar dreifi Kóraninum til nemenda og sama hátt og Gídeon-félagið hafi dreift Nýja testamentinu undanfarna áratugi. Skilyrðið verður í báðum tilvikum að ritin séu notið við kennslu.

Eins og greint hefur verið frá á mbl.is í dag samþykkti fræðsluráð Hafnarfjarðar í morgun nýjar viðmiðunarreglur um samskipti leik- og grunnskóla Hafnarfjarðar við trúar- og lífsskoðunarfélög. Einnig var greint frá því að bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks teldi reglurnar ekki koma í veg fyrir að Gídeon-félagið kæmi í skóla og dreifði Nýja testamentinu til nemenda.

Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, formaður fræðsluráðs, segir að það sem fyrst og fremst hafi verið tekist á um í starfi nefndarinnar hafi verið dreifing boðandi efnis í skólunum. „Við förum aðra leið en Reykjavík, en þar var sett á hreint og klárt bann við dreifingu Nýja testamentisins. Við tölum um að ekki eigi að dreifa boðandi efni í trúarlegum tilgangi. Hins vegar tökum við sérstaklega fram að dreifa megi efni sem tengist fræðslu og stuðlar að menningarlæsi barna. Þannig að sé efnið notað í kennslufræðilegum tilgangi er komin upp ný staða.“

Skólans að meta fræðslugildið

Í viðmiðunarreglunum segir að trúar- og lífsskoðunarfélög skuli ekki stunda starfsemi sína innan veggja leik- og grunnskóla bæjarins á skólatíma. Guðrún Ágústa segir að þarna sé aðeins verið að skrásetja vinnubrögð sem skólarnir hafi þróað undanfarin ár, enda stundi trúar- og lífsskoðunarfélög ekki starfsemi innan skólanna í dag.

Þá segir að starfsemin eigi við um allar heimsóknir í lífsskoðunar- og trúarlegum tilgangi og dreifingu á boðandi efni. „Með boðandi efni er átt við hluti sem gefnir eru eða notaðir sem hluti af trúboði, það er tákngripir, fjölfölduð trúar- og lífsskoðunarrit, bækur, hljóðrit, prentmyndir og kvikmyndir. Ekki er átt við efni sem tengist fræðslu er stuðlar að menningarlæsi barna.“

Guðrún segir að þarna sé því farin önnur leið en í Reykjavík. „Þeir tóku hreina og klára afstöðu en við töldum að annaðhvort þyrfti að banna eða beita jafnræði, þannig að ljóst sé að efnið sé í kennslufræðilegum tilgangi en ekki boðandi tilgangi.“

Hver ákveður hvaða efni tengist kennslunni?

„Það hefur fram til þessa verið í höndum kennara og skólastjórnenda, og verður áfram. Og með viðmiðunarreglunum er kominn farvegur fyrir foreldra ef þeir túlka þetta með öðrum hætti, þá er því vísað til úrskurðar Fræðsluþjónustunnar.“

Ekki allt boðandi efni fræðsluefni

Beðin um að gefa dæmi um efni sem geti fallið undir kennslufræðilegt efni nefnir Guðrún Ágústa Nýja testamentið. „Þetta er rit sem hægt er að nýta, eða hluta af því í trúarbragðafræði. En við setjum þetta í hendurnar á skólastjórnendum og kennurum.“

Er ekki hægt að nota Kóraninn í trúarbragðafræði?

„Jú, í trúarbragðafræði sem hluta af kennslufræðilegu efni til að stuðla að menningarlæsi barna. Við vísum í þessi rit í kennsluefni.“

Þannig að heimilað er að dreifa Kóraninum í grunnskólum Hafnarfjarðar?

„Sem kennslufræðilegu gagni, já.“

Spurð hvort viðmiðunarreglurnar séu ekki óljósar segir Guðrún Ágústa að svo ekki. Það skipti máli að binda ekki faglegar kennslufræðilegar forsendur kennara til að starfa samkvæmt aðalnámskrá leik- og grunnskóla.

En getur ekki allt boðandi efni sem talið er upp í reglunum talist fræðsluefni sem stuðli að menningarlæsi barna?

„Það þarf nú ekki að vera. Ég treysti mér ekki til að tína til hvað sé ekki fræðsluefni, en ég myndi halda að þau rit sem ákveðin trúfélög ganga um með í hús til fólks væri hreint og klárt boðandi efni og ekki til þess fallið að stuðla að menningarlæsi barna.“

Geta látið starfsmenn skólans fá efnið

Á vefsvæði Gídeonfélagsins er fjallað um það hvernig dreifing Nýja testamentisins fer fram. Þar segir: „Úthlutun fer þannig fram að í upphafi segja félagar frá stofnun félagsins og að því loknu er þeim nemendum sem þiggja vilja bókina afhent hún og farið í stuttu máli yfir hvernig Biblían skiptist í Gamla og Nýja testamentið. Einnig er farið yfir hvernig rit Biblíunnar skiptast í kafla og vers og nemendum kennt að fletta upp ritningarversi.

Spurð hvort það stangist ekki á við reglurnar, þ.e. það ákvæði að trúar- og lífsskoðunarfélög skuli ekki stunda starfsemi sína innan veggja leik- og grunnskóla, að félög komi og dreifi efni sínu þó svo um fræðsluefni sé að ræða, segir Guðrún Ágústa: „Þau geta komið og látið starfsmenn skólanna fá efnið. Þá er það skólans að meta hvort það verði tekið og kennari noti það í kennslufræðilegum tilgangi.“

Guðrún Ágústa tekur skýrt fram að reglurnar verði endurskoðaðar innan árs með hlutaðeigandi aðilum.

Ungur drengur með Kóraninn.
Ungur drengur með Kóraninn. AP
Enn má setja upp helgileiki í Hafnarfirði.
Enn má setja upp helgileiki í Hafnarfirði. mbl.is/Ernir
Staflar af Kóraninum.
Staflar af Kóraninum. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert