„App“ eykur öryggi ferðafólks

Snjallsímaforritinu 112 Iceland er ætlað að auka öryggi ferðafólks. Með því geta ferðamenn bæði kallað eftir aðstoð og skilið eftir sig slóð með mikilli nákvæmni. Slíkar upplýsingar geta skipt sköpum þegar neyðarkall berst en ekki er nauðsynlegt að vera með gagnatengingu til að koma boðunum áleiðis. Venjulegt símasamband nægir til þess.

Valitor þróaði forritið í samvinnu við hugbúnaðarfyrirtækið Stokk en því er ætlað að auka  öryggi ferðamanna hér á landi og þéttir það öryggisnet sem fyrir er í landinu. Að verkefninu hafa einnig komið Neyðarlínan, Slysavarnafélagið Landsbjörg og Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra.

Forritið mun ekki eingöngu auka öryggi ferðamanna heldur ætti það að auka hagkvæmni hjá björgunarsveitunum þar sem það eykur vissu um hvaða björgunarsveit er best og einfaldast að kalla út vegna leitar.

Forritið fæst endurgjaldslaust bæði hjá Google Play og iTunes en einnig hjá safetravel.is en það verður kynnt vel fyrir ferðamönnum sem munu leggja leið sína til landsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert