„Það er kominn 17. júní, með hátíð og gleði. Dagur þjóðar, fólks sem er fætt eða flutt hingað til lífs í þessu landi. Við erum lítil þjóð sem grannríkin í heiminum taka gilda,“ sagði séra Hjálmar Jónsson, í upphafi predikun sinnar í Dómkirkjunni, en guðsþjónusta hófst þar rétt rúmlega 10 í morgun.
Séra Hjálmar sagði það vera vinavott og mikilvægt fyrir þjóðina að fulltrúar erlendra ríkja taki þátt í hátíðarhöldunum með okkur.
„Þjóðfáninn blaktir við hún, tákn þess frelsis sem barist var fyrir forðum. Íslenski fáninn, sem hefur aldrei verið blóði drifinn. Sjálfstæðið var ekki útkljáð á vígvöllum. Áræðið fólk talaði máli lítillar þjóðar sem vildi standa á eigin fótum,“ sagði séra Hjálmar og vitnaði því næst í Íslandsvísur Jóns Trausta.
Ljóðlína skáldsins; „ég vil efla þess dáð, ég vil styrkja þess hag,“ á við nú sem fyrr.
„Ég efast ekki um að allir landsmenn vilji gera þessi orð að sínum og leggja sitt af mörkum. Sumir eru hins vegar í betri færum til þess en aðrir. Löggjafarsamkoman starfar hér í næsta húsi. Vafalaust hafa alþingismenn í raun þessi orð skáldsins að leiðarljósi. Þjóðin á líka mikið undir því að þeim takist að starfa saman fyrir landið; að efla þess dáð og styrkja þess hag.“