Hópslagsmál og erill á Akureyri

Ljósmynd/Kristinn Freyr Jörundsson

Nokkur erill var hjá lögreglunni á Akureyri í gærkvöldi og nótt. Margir voru úti að skemmta sér og þurftu lögreglumenn aðallega að sinna verkefnum tengdum skemmtanalífinu.

Mikill fjöldi fólks er nú saman kominn í bænum vegna Bíladaga og freistuðust nokkrir ökumenn til þess að sýna listir sínar á götum bæjarins. Þurfti lögregla því að hafa afskipti af aksturslagi sumra ökumanna en aðallega voru menn að spóla í hringi með tilheyrandi hávaða. 

Tveir ökumenn voru þó teknir fyrir of hraðan akstur innanbæjar. Sá sem hraðast ók var á mótorhjóli og mældist hann á 93 km/klst en hámarkshraði var 50 km/klst. Á hann yfir höfði sér háa fjársekt vegna brotsins.

Þá fékk lögregla tilkynningu um að þrír menn hefðu rutt sér leið inn á heimili í bænum og lamið húsráðanda. Árásin tengist að sögn lögreglu einhverjum deilum á milli aðila og slapp húsráðandi með minniháttar meiðsl.

Eftir að skemmtistöðum bæjarins var lokað seint í nótt fékk lögregla tilkynningu um hópslagsmál í miðbænum en mikill mannfjöldi var þar saman kominn. Alls voru sex fluttir á slysadeild, fimm af lögreglu eftir slagsmál og einn með sjúkrabíl eftir líkamsárás.

Tveir ökumenn voru teknir fyrir akstur undir áhrifum áfengis. Annar þeirra hafði þegar endað ökuferð sína illa en hann keyrði á staur í miðbænum og svo utan í aðra bifreið.

Þá voru einnig tveir handteknir til viðbótar í tengslum við skemmdarverk en þeir höfðu sparkað í og skemmt bifreið sem stóð á bílastæði í miðbænum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert