Óverjandi ofurskattar

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Golli

„Frumvarp sjávarútvegsráðherra hefur goldið algert afhroð hér í þinginu og manni verður hugsað til þess hvernig menn ætla að horfast í augu við það að hafa komið með jafn illa ígrundað og óvandað mál til þingsins eins og á við í þessu tilviki,“ sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, í samtali við mbl.is í tengslum við samkomulag um þinglok sem gengið var frá síðdegis. Það felur í sér að frumvarp um veiðigjöld verði afgreitt. Veiðigjald verður afmarkað til eins árs og verður að hámarki frá 12,7-13,8 milljarðar króna. Í upphaflegu frumvarpi sem sjávarútvegsráðherra lagði fram á þingi í vetur var gert ráð fyrir að veiðigjöld skiluðu 19,5 milljörðum að meðaltali á ári.

„Nú hafa verið kynnt til sögunnar áform um að slá mjög af hugmyndum um gjaldtöku sem nú nema um 12 til 13 milljörðum en eftir standa ofurskattar sem er ekki hægt með nokkru móti að réttlæta,“ segir Bjarni. Það sýni sig hversu illa ígrundað málið sé að jafnvel eftir að gjaldinu er komið á eigi á að skipa nefnd til að kanna hvort það byggist á réttum útreikningum og til að skoða hvort grundvöllur gjaldsins sé sanngjarn. „Og það er með ólíkindum að upplifa jafnmikið skeytingarleysi gagnvart störfum í greininni og afkomu fyrirtækja sem þar starfa og birtist í áherslum stjórnarflokkanna í þessu máli,“ segir Bjarni.

Bjarni segir augljóst að þeir fjármunir sem ríkið sogi til sín úr greininni verði ekki notaðir til fjárfestinga innan sjávarútvegsins eða til að styrkja efnahag fyrirtækjanna sem þar starfa. Mörg fyrirtæki í greininni þurfi mjög á því að halda, bæði að fjárfesta í greininni og að styrkja efnahag sinn.

„Þetta er að gerast einmitt þegar fjárfesting í greininni er í algjöru lágmarki vegna þeirrar óvissu sem ríkisstjórnin hefur skapað á kjörtímabilinu,“ segir Bjarni.

Spurður um framhaldið svaraði Bjarni því að það yrði að fara strax í að skoða ofan í kjölinn þær forsendur sem málið byggist á. Heildarhagsmunir þjóðarinnar séu í húfi.

„Okkar heildarhagsmunir byggjast á því að lágmarka ríkisafskiptin, búa greininni hagstæð skilyrði, hvetja menn til að auka hagræði og skila meiri arðsemi. Þannig borgar greinin hærri skatta, getur greitt meiri laun og viðhaldið skipaflotanum og forskoti sínu á aðrar þjóðir við að skapa verðmæti úr aflanum,“ segir Bjarni.

Breytingar á stjórn fiskveiða lagðar til hliðar

„Það skiptir gríðarlega miklu máli að áform um breytingar á stjórn fiskveiða hafa verið lögð til hliðar. Það þýðir að það verða engar meiriháttar breytingar festar í lög sem munu hafa áhrif fyrir næstu kosningar,“ segir Bjarni og vísar þar í umrætt samkomulag um þinglok.

„Það var mikil áhersla lögð á það af okkar hálfu og það er gríðarlega mikilvægt að þetta liggi fyrir nú þetta síðasta fiskveiðiár fyrir kosningar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert