Með enga formlega stöðu samkvæmt þingsköpum

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar.
Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar. mbl.is/Ómar

Fulltrúi Hreyfingarinnar í atvinnuveganefnd Alþingis, Þór Saari, lét á fundi hennar í morgun bóka mótmæli gegn því að sérstakur trúnaðarmannahópur fulltrúa stjórnmálaflokkanna haldi áfram vinnu við frumvörp um stjórn fiskveiða og veiðigjöld og skili í kjölfarið af sér niðurstöðu í þeim efnum. Er þess krafist að unnið verði að málinu með atvinnuveganefnd enda hafi trúnaðarmannahópurinn enga formlega stöðu samkvæmt þingsköpum Alþingis.

Bókunin er svohljóðandi:

„Hreyfingin mótmælir því fyrirkomulagi við vinnu við frumvarp til laga um stjórn fiskveiða og veiðigjöld (mál 657 og 658) að svo kallaður trúnaðarmannahópur fulltrúa fimm stjórnmálaflokka haldi áfram vinnu sinni og skili frá sér samantekt/greinargerð til grundvallar frekari vinnu við frumvarp um stjórn fiskveiða. Slíkur hópur hefur enga formlega stöðu samkvæmt þingsköpum Alþingis og það er óásættanlegt að vinna við þingmál fari fram með þessum hætti. Hreyfingin krefst þess að hópurinn sem samanstendur af fulltrúum í atvinnuveganefnd vinni að málinu með atvinnunefnd allri og að nefndin öll hafi beina aðkomu að öllum fundum og tillögum hópsins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert