Ragnheiður Ríkharðsdóttir alþingismaður sagði á Alþingi í dag að hún efaðist um að breyting sem lögð er til í frumvarpi til breytinga á útlendingalögum stæðist stjórnarskrá. Samkvæmt frumvarpinu verður Frökkum falið vald til að synja um útgáfu vegabréfsáritunar fyrir Íslands.
Samkvæmt lögum um útlendinga tekur Útlendingastofnun ákvörðun um umsókn um útgáfu vegabréfsáritunar, en heimilt er þó að fela utanríkisþjónustu annars ríkis sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu að verða við umsókn um vegabréfsáritun. Á þessum grundvelli hafa verið gerðir samningar við nokkur ríki um að annast áritunarmál fyrir Íslands hönd í um 90 löndum og fara viðkomandi ríki með fyrirsvar fyrir Íslands hönd í áritunarmálum.
Frakkar hafa séð um útgáfu á vegabréfum fyrir Íslands hönd í 13 löndum: Armeníu, Brúnei, Dóminíska lýðveldinu, Fidjieyjum, Georgíu, Hvíta-Rússlandi, Kambódíu, Katar, Líbanon, Makedóníu, Máritíus, Papúa og Úsbekistan.
Einungis Útlendingastofnun er heimilt að synja umsókn um vegabréfsáritun samkvæmt núgildandi lögum og því hefur þurft að bera umsóknir undir Útlendingastofnun.
9. mars 2010 tilkynntu Frakkar að þeir myndu ekki lengur fara með fyrirsvar vegna útgáfu vegabréfsáritana fyrir Íslands hönd nema þeir fengju vald til að hafna umsóknum án þess að bera þær undir Ísland. Danir eru einnig í þessari sömu stöðu, en þeir ákváðu að gera ekki nýjan samning við Frakka.
Þuríður Backman, sem gerði grein fyrir nefndaráliti allsherjar- og menntamálanefndar, styður frumvarpið en segist hafa efasemdir um stjórnskipulega stöðu málsins.
Ragnheiður Ríkharðsdóttir gagnrýndi að nefndin hefði ekki fengið umbeðnar upplýsingar frá innanríkisráðuneytinu. Hún sagði að þeirri spurningu hefði ekki verið svarað hvort Alþingi væri heimilt að framselja vald til Frakka með þeim hætti sem frumvarpið gerði ráð fyrir. Meðan þeirri spurningu hefði ekki verið svarað væri eðlilegt að láta stjórnarskrána njóta vafans.