Atlantsolía hefur lækkað verð á eldsneyti. Bensín lækkar um tvær krónur lítrinn og dísil um þrjár krónur lítrinn. Bensínlítrinn kostar eftir lækkun 246,50 krónur og lítrinn af dísil 245,30 krónur.
Í tilkynningu frá Atlantsolíu kemur fram að lækkun gengis Bandaríkjadals gagnvart krónunni vegur þyngst í lækkun á verði eldsneytis að þessu sinni. Eldsneytisverð hafi lækkað um tuttugu krónur frá því um miðjan apríl þegar það fór hæst í 266 krónur lítrinn. Ef ekki hefði komið til gengissig krónunnar gagnvart Bandaríkjadal frá því fyrir áramót væri eldsneytisverð sjö krónum lægra í dag, samkvæmt upplýsingum frá Atlantsolíu.