Sólin rís hæst á sumarsólstöðum

Gullroðaský að morgni í höfuðborginni.
Gullroðaský að morgni í höfuðborginni. mbl.is/ÞÖK

Sumarsólstöður eru í dag, en það er sá tími ársins þegar sólin rís nyrst og hæst yfir miðbaug, og er því lengsti dagur ársins á norðurhveli jarðar. Sólin kom upp í Reykjavík um þrjúleytið í nótt, og verður sólarlag um fjórar mínútur yfir miðnætti. Eftir því sem norðar dregur má gera ráð fyrir því að sólarinnar muni njóta lengur, og verður hún á lofti nánast allan sólarhringinn á Akureyri. Þegar komið er norður fyrir heimskautsbaug helst sól á lofti allan sólarhringinn. Eftir daginn í dag fer sólin aftur að lækka á lofti og dagarnir munu því styttast jafnt og þétt þangað til á vetrarsólstöðum, sem verða 21. desember í ár.

Veðurstofan segir að veðrið verði svipað og undanfarna daga. Það verði hugsanlega skúrakenndara en hefur verið, einkum á Suðurlandi og inni á landi seinnipartinn. Fyrir norðan ætti að sjást til sólar og samkvæmt skýjaspá mun rofa til um kvöldið, þannig að Norðlendingar ættu að geta notið kvöldsólarinnar, en hennar nýtur lengst við á Norðurlandi þennan dag.

Það verður sæmilega hlýtt á öllu landinu og gæti hitinn farið upp í 16 stig þar sem best lætur, en á Austurlandi gæti orðið svalast og líkur á að hitinn fari ekki mikið yfir 10 gráðurnar. Annars staðar ætti hitinn að vera 12 til 15 gráður á celsíus.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka