Hvöttu Ara til að hætta við

Ari Trausti Guðmundsson forsetaframbjóðandi ásamt eiginkonu sinni, Maríu G. Baldvinsdóttur.
Ari Trausti Guðmundsson forsetaframbjóðandi ásamt eiginkonu sinni, Maríu G. Baldvinsdóttur.

Bæði stuðningsmenn Þóru Arnórsdóttur og Ólafs Ragnars Grímssonar hafa leitað eftir því við Ara Trausta Guðmundsson að hann dragi framboð sitt til baka. Kosningastjórn Ara Trausta sendi tilkynningu frá sér á facebook nú í kvöld þar sem segir að stuðningsmenn Þóru hafi leitast eftir því að Ari Trausti dragi framboð sitt til baka og lýsi yfir stuðningi við hana einungis svo Ólafur Ragnar verði ekki endurkjörinn.

Í tilkynningu frá kosningastjórn Ara Trausta kemur fram að umrædd vinnubrögð séu ekki við hæfi.

„Einstaklingar hafa hringt í mig, bæði fylgismenn Ólafs sem vilja ekki Þóru og fylgismenn Þóru sem vilja fyrir engan mun Ólaf Ragnar,“ segir Ari í samtali við mbl.is nú í kvöld.

„Það er ekkert annað sem við gerum í þessu en að svara af kurteisi. Við lítum ekki á þetta sem skipulagða herferð og drögum engan til ábyrgðar, þetta líður hjá“ segir Ari og tekur það fram að einungis einstaklingar hafi haft samband við hann enn ekki formlegir talsmenn Þóru eða Ólafs.

Tilkynninguna var birt á Facebook-síðu framboðs Ara Trausta og má lesa hér í heild:

„Frá kosningastjórn: Nokkuð hefur borið á því að stuðningsmenn Þóru séu að leitast eftir því að Ari Trausti dragi framboð sitt tilbaka og lýsi yfir stuðningi við hana einungis svo ÓRG verði ekki endurkjörinn. Við segjum því: Ari Trausti ber ekki ábyrgð á orðum né gerðum annarra frambjóðenda. Þætti þeim við hæfi að við stuðningsmenn Ara færum inn á síðu Þóru og hvettum hana til að draga framboð sitt tilbaka og styðja Ara Trausta þar sem menn hafa sagt að hann sé hugsanlega sá eini sem geti fellt sitjandi forseta og sátt náðst um ? Það þykir okkur ekki. Þeir sem hafa litið hér inn í þessum tilgangi segja þó að Ari Trausti sé góður kostur! Við hvetjum fólk til að fylgja eigin sannfæringu og kjósa þann sem þeim þykir hæfastur í embættið. Láta ekki skipa sér í fylkingar, kjósa MEÐ einum en ekki aðeins til að kjósa á MÓTI öðrum. Við trúum því að aðeins þannig náist sátt um næsta forseta og að þjóðin verði ekki áfram klofin í tvær fylkingar. Ari Trausti og María eru TRAUST sameiningartákn sem þjóðin getur verið einhuga um. Þau munu vera okkur til SÓMA hérlendis sem erlendis.“



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert