Óeðlilegar flettingar í sjúkraskrá

Heilbrigðisstofnun Suðurlands.
Heilbrigðisstofnun Suðurlands. mbl.is/GSH

Ekki er til skrifleg lýsing á öryggiskerfi Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (HSU) og atvikaskráning hefur ekki verið með þeim hætti að unnt sé að veita sjúklingum skýringar á uppflettingum í sjúkraskrám. Persónuvernd segir að HSU uppfylli ekki skilyrði laga um persónuvernd.

Sjúklingur kvartaði til Persónuverndar yfir óeðlilegum uppflettingum í sjúkraskrá hans hjá HSU, en hann hafði verið í sambandi við framkvæmdastjóra lækninga vegna gruns um að tiltekinn einstaklingur hefði óeðlilegar upplýsingar um heilsu hans.

Í svörum HSU til viðkomandi sjúklings kom fram að sérkennilegt væri hversu oft sjúkraskráin hafi verið skoðuð og honum flett upp, einkum í ljósi þess hve sjaldan hann hefði komið á HSU. Þannig hefði virst að starfsmaður hefði skráð sig inn en það ætti ekki að geta staðist þar sem hann hefði ekki verið í vinnunni í umrætt sinn.

Þá segir að læknaritarar hafi með höndum aðgangsstillingar að sjúkraskrárkerfinu og gat HSU sér þess til að þeir hefðu fyrir mistök opnað sjúkraskrána.

Persónuvernd taldi HSU ekki uppfylla skilyrði 11. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og reglna nr. 299/2001 um öryggi persónuupplýsinga. Af þeirri ástæðu beinir Persónuvernd þeim fyrirmælum til HSU að yfirfara öryggisráðstafanir sínar til þess að tryggja lögmæti vinnslu sjúkraskrárupplýsinga hjá stofnuninni.

HSU skal fyrir 15. ágúst 2012 afhenda Persónuvernd skriflega lýsingu á öryggiskerfi sínu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert