Verð á heitu vatni hækkar um 3,5%

Verð á heitu vatni hjá Orkuveitu Reykjavíkur hækkar um 3,5% í sumar. Þetta er þriðja hækkunin á heitu vatni síðan ákvörðun var tekin um að hækka verðið um 35% í október 2010.

Þegar gjaldskrá Orkuveitunnar var hækkuð verulega haustið 2010 lýstu stjórnendur hennar því yfir að gjaldskráin myndi fylgja verðlagsþróun. Verð á heitu vatni hækkaði um 8% í apríl 2011, um 5,3% um síðustu áramót og ákveðið hefur verið að hækka verðið aftur nú í sumar um 3,5%.

Orkuveitan hækkaði gjaldskrá fyrir dreifingu rafmagns um 40% haustið 2010 og söluhluti rafmagns hækkaði um 11%. Gjaldskrá fyrir dreifingu á rafmagni hækkaði um síðustu áramót um 12%.

Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitunnar, sagði á ársfundi fyrirtækisins fyrr í þessum mánuði, að sú hækkun sem hefði orðið á gjaldskrá Orkuveitunnar þýddi að nú væri gjaldskráin í raun svipuð og hún var árið 2005. Frá 2005 til 2010 hefði gjaldskráin ekki hækkað í takt við verðlag. Hann sagði að þrátt fyrir þessa hækkun væri orkuverðið í Reykjavík enn langlægst af höfuðborgum Norðurlandanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert