Þrefalt fleiri ferðamenn í Vestmannaeyjum

Vestmannaeyjar iða af mannlífi á sumrin.
Vestmannaeyjar iða af mannlífi á sumrin. mbl.is/Brynjar Gauti

Fjöldi erlendra ferðamanna sem kjósa að fara til Vestmannaeyja hefur allt að þrefaldast að sögn Kristínar Jóhannsdóttur menningar- og ferðamálafulltrúa. Hún segir þróunina hafa mjög jákvæð áhrif á allt mannlíf í bænum.

 „Tölur um fjölda ferðamanna hafa ekki verið teknar saman, forsvarsmenn Herjólfs hafa ekki fengist til að taka saman tölur um erlenda farþega. Við höfum við því verið að skjóta á fjöldann miðað við gistitölur og upplýsingar um aðra fyrirliggjandi þætti. Fyrir Landeyjahöfn vorum við að fá 15-20 þúsund ferðamenn á ári en fjöldinn hefur þrefaldast með tilkomu nýju hafnarinnar. Þetta er gífurleg innspýting fyrir samfélagið.“

 Kristín segir allt annað hljóð í forsvarsmönnum hótela, gistiheimila og annarra ferðaþjónustuaðila, þeir finni fyrir mikilli aukningu.  Að hennar sögn er miklu meira líf í bænum yfir sumartímann þegar ferðamenn streyma að. "Það blómstrar allt, söfnin, veitingastaðir, kaffihús og ferðaþjónustuaðilar. Það segir sig sjálft að þetta er allt önnur útgerð þegar hér eru fullar rútur af fólki í skoðunarferðum sem var ekki algengt fyrir nokkrum árum. Svo eru menn hér í bæ með drauma um stóra hótelbyggingu.“

 Í aðdraganda bættra samgangna til eyjanna lögðu bæjaryfirvöld mikið á sig til að geta heillað og tekið á móti auknum fjölda ferðamanna. "Yfirvöld lögðu mikið kapp á að klára nýtt útivistarsvæði við sundlaugina áður en nýja höfnin var tekin í gagnið. Einnig var tjaldsvæðið gert upp svo hægt væri að taka á móti fleirum auk þess sem safnaflórunni okkar var komið í betra horf."  

 Landeyjarhöfn hefur því skilað Vestmannaeyjum miklu en Kristín er síður en svo ánægð með stopular ferðir Herjólfs frá Landeyjum yfir vetrartímann. "Það er ekki ásættanlegt að þessi flotti ferðamannastaður eigi að loka í Október. Við erum stutt frá Reykjavík og þangað koma ferðamenn allt árið. Við viljum og höfum allt til að taka á móti ferðamönnum allt árið. Því þurfa skipið og höfnin að fara að passa saman árið um kring," segir Kristín að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert