„Stundum hef ég það á tilfinningunni að suma þeirra sem undu því illa að þjóðin hafnaði Icesave samningunum, hreinlega langi til að við töpum þessu máli,“ segir Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, á heimasíðu sinni í dag.
Tilefni skrifa hans er nýlegur leiðari í Fréttablaðinu um Icesave-málið þar sem vísað er í skýrslu frá Ríkisendurskoðun um að ef Íslendingar tapi málaferlunum fyrir EFTA-dómstólnum þurfi þeir eftir sem áður að semja við bresk og hollensk stjórnvöld um endurgreiðslu og vexti vegna málsins.
Þetta segir Ögmundur vera rangt bæði hjá Fréttablaðinu og Ríkisendurskoðun. Hann bendir á að málflutningur Íslands fyrir EFTA-dómstólnum gangi út á að sýna fram á að íslenska ríkið, það er íslenskir skattgreiðendur, beri ekki ábyrgð á Icesave-skuldbindingunum. Hann hefði talið að samstaða væri á meðal Íslendinga um það.
Hann minnir á að fyrir EFTA-dómstólnum sé fjallað um það hvort Ísland hafi brotið gegn tilskipun Evrópusambandsins um innstæðutryggingar en þar sé hins vegar ekki fjallað um hugsanlega fébótaábyrgð íslenska ríkisins. Mál vegna þess verði aðeins höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur sem sé varnarþing íslenska ríkisins.
„En hvers vegna þessi ákafi að koma sök á Íslendinga? Getur verið að menn langi til að við förum halloka í þessu máli?“ spyr Ögmundur að lokum og bendir ennfremur á að ef síðustu samningar um lausn Icesave-málsins hefðu verið samþykktir væru Íslendingar búnir að greiða tugi milljarða í vexti til Breta og Hollendinga.