Í dag er síðasti dagur strandveiða í þessari viku og er ljóst að strandveiðisjómenn ætla sér að nýta daginn vel því samkvæmt upplýsingum frá stjórnstöð Landhelgisgæslu Íslands eru rúmlega 800 strandveiðibátar komnir á sjó.
Hjá Landhelgisgæslunni hafa menn haft í nógu að snúast þessa vikuna enda mikill fjöldi báta streymt á miðin að undanförnu. Þrátt fyrir annríkið hefur allt gengið að mestu vel fyrir sig og reikna starfsmenn Landhelgisgæslunnar með að um eitt þúsund bátar verði við veiðar í dag.
Að loknum degi verður hlé gert á strandveiðum fram yfir helgi en svo má búast við aukinni sjósókn á mánudag þegar veiðar hefjast að nýju.