Eldfell í Vestmannaeyjum hefur kólnað verulega síðan hiti var mældur þar árið 1990. Þetta kemur fram í nýjum mælingum Náttúrufræðistofnunnar Íslands og Náttúrufræðistofu Suðurlands. Vísindamenn telja að kólnun haldi áfram næstu árin. Í Eldfelli er að finna fjölda útfellingasteinda og eru sex þeirra nýjar fyrir jarðvísindin.
Sérfræðingar Náttúrufræðistofnunnar Íslands og Náttúrufræðistofu Suðurlands gerðu rannsóknir á Eldfelli dagana 11. og 12. júní sl. Hiti í fjallinu var mældur með það að markmiði að kanna útbreiðslu hans en 39 ár eru frá goslokum í Heimaey.
Hiti var mældur á 178 stöðum í Eldfelli, á um 15 cm dýpi. Samkvæmt upplýsingum frá Náttúrufræðistofnun Íslands er um að ræða mælingar á lofti sem blandað er heitum gastegundum sem koma úr kólnandi bergi í rótum eldfjallsins og stíga upp í gígbarma Eldfells. Útbreiðsa hitasvæðisins miðast við 20°C hita til að sneiða hjá hugsanlegum áhrifum sólar.
Á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands segir að jarðhitasvæðið takmarkist nú við eystri gígbarm Eldfells. Þrjú lítil svæði á háegginni eru meira en 200°C heit. Hæsti hiti á 15 cm dýpi mældist 290°C.
Sumarið 2009 mældust 450°C á 40 cm dýpi á sama stað og er líklegt þykir að hiti sé svipaður þar enn í dag.
Niðurstöður vísindamanna leiða m.a. í ljós að Eldfell hefur kólnað verulega síðan 1990, sérstaklega vestan og norðan megin. Svæðið með meira en 50°C hita er nú aðeins 5.300 fermetrar en var tæplega 69.000 fermetrar árið 1990. Sömuleiðis hefur svæðið með meira en 100°C hita minnkað verulega eða úr 5.600 fermetrum í 2.100 fermetra.
Vísindamennirnir búast við við áframhaldandi kólnun í eldstöðinni næstu árin en á afmörkuðu svæði í háegg Eldfells muni jarðhitinn haldast lengst.
Marglitar eldfjallaútfellingar hafa myndast þar sem heitast hefur verið í Eldfelli. Í eystri gígbrúninni hafa nú fundist alls 87 tegundir útfellingasteinda (mínerala). Sex tegundanna eru nýjar fyrir jarðvísindin samkvæmt rannsóknum stofnananna.
Ein útfellinganna heitir eftir Eldfelli og nefnist eldfellít. Henni mun þegar hafa verið lýst í alþjóðlegum fræðiritum. Eldfell þykir einn merkasti fundarstaður steinda á landinu.
Frekari upplýsingar má finna hér: