Á höfuðborgarsvæðinu hafa seinustu ár orðið til einskonar„draugahverfi“ þar sem búið er að leggja götur, holræsi, rafmagn, síma og úthluta lóðum en húsin vantar.
„Það er sáralítil hreyfing á nýjum húsum. Einu framkvæmdirnar eru við húseignir sem byrjað var á fyrir hrun,“ segir Ásbjörn Þorvarðarson, byggingarfulltrúi Mosfellsbæjar.
Nýtt hverfi í Leirvogstungu var skipulagt í góðærinu en þar stöðvaðist allt í hruninu og hverfið stendur óklárað.
„Það er verið að klára þessar eignir smám saman, eftir því sem einstaklingar og fjármálastofnanir selja þetta frá sér,“ segir Ásbjörn. Eftir hrun hefur ekki verið sótt um leyfi til að byggja á lóðum sem standa auðar í Leirvogstungu.
Víða finnast ókláraðir grunnar í Leirvogstungu og hafa íbúar áhyggjur af frágangi á byggingarsvæðum í hverfinu. Þar er engin girðing umhverfis svæðin, steypustyrktarjárn standa upp úr veggjum og byggingarefni liggja á víð og dreif.
„Á síðasta ári hófum við mikið átak og gerðum úrbætur. Við teljum að í flestum tilfellum hafi náðst árangur og slysahætta í Leirvogstungu sé lítil,“ segir Ásbjörn. Átakið var gert síðastliðið haust og fór þá seinast fram skoðun á svæðinu.
„Það ríkir óvissa um vegina í Leirvogstungu og við værum til í að sjá fleiri vegi malbikaða,“ segir Rúnar Þór Guðbrandsson, formaður íbúasamtaka Leirvogstungu. Rúnar vill að Mosfellsbær byrji á Tunguvegi og segir það vera nauðsynlega samgöngubót fyrir hverfið.
Tunguvegur mun tengja saman nýtt hverfi í Leirvogstungu, íþróttasvæðið á Tungubökkum og gatnakerfið í Mosfellsbæ. Áætlað er að um 1.500 bílar muni fara um veginn á sólarhring en gert er ráð fyrir að um 2.500 bílar fari um gatnamót Vesturlandsvegar við Leirvogstungu.
Vegurinn hefur verið á aðalskipulagi um árabil og er hann mikilvægur til að tryggja öryggi íbúa í Leirvogstungu og þeirra sem leið eiga á Tungubakka. Vegurinn mun nýtast nýjum íbúum í Leirvogstungu til að tengjast miðbæ Mosfellsbæjar.
„Það er helst óvissuástandið hjá framkvæmdaraðila og Mosfellsbæ sem hefur stoppað það verkefni,“ segir Rúnar.
„Ókláruðu hverfin í Garðabæ standa ágætlega og það er nú verið að vinna í nýjum grunnum,“ segir Agnar Ástráðsson, byggingarfulltrúi Garðabæjar.
Um 1000 íbúa byggð í Urriðaholti var ráðgerð á árunum fyrir hrun en framkvæmdir voru rétt hafnar þegar hrunið skall á og allt stöðvaðist.
„Boltinn er farinn að rúlla aftur og við erum að samþykkja ný hús. Svo er vinnan aftur byrjuð í þeim húsum sem voru farin af stað,“ segir Agnar, en í Urriðaholti er m.a. gert ráð fyrir nýjum grunnskóla og leikskóla.
Um 400 manns búa í Úlfarsárdal við Úlfarsfell. Hverfið er hluti af Reykjavík, en var skilið eftir hálfklárað eftir að efnahagskreppan skall á árið 2008 og lítið hefur verið byggt og bætt þar síðan.
„Hér er fullt af óbyggðum lóðum. Flestir þeirra sem hafa byggt sér einbýli hafa þó náð að flytja inn í húsin,“ segir Kristinn Steinn Traustason, formaður íbúasamtaka í Úlfarsársdal. Hann telur stöðuna þó almennt slæma.
Eins og víða annars staðar í hálfkláruðum hverfum höfuðborgarsvæðisins er margt sem má laga að mati íbúa. „Allar götur eru malbikaðar en frágangur gangstétta er t.a.m. ekki góður,“ segir Kristinn. Hann segir ástandið skána hægt og frágangur lóða og grunna alls ekki vera til fyrirmyndar.
Gísli Marteinn Baldursson, borgarfulltrúi í Reykjavík, hefur verið í fararbroddi þeirra manna sem tala gegn stækkun borgarinnar austur, en hann telur að frekar ætti að þétta byggðina.
„Menn hafa smám saman áttað sig á því að það er ekki sniðugt að hafa stóra byggð í Úlfarsárdal,“ segir Gísli, en upprunalega átti að rísa þar um 25.000 manna byggð.
Gísli telur að gott hverfi geti risið í Úlfarsárdal og telur hæfilegt að byggðin telji um 4000-5000 manns.
„Ég sé fyrir mér að þetta yrði eitt gott skólahverfi, svipað að stærð og Fossvogur,“ segir Gísli, en hann telur frekari stækkun í austur það versta sem gæti komið fyrir þá sem þegar hafa flust í Úlfarsárdalinn.
„Reykjavík er mjög rík af úthverfum og ég tel þau vera ein af þeim bestu í heiminum. Hins vegar er núverandi stefna hættuleg,“ segir Gísli.