Tilkynnt um tvær líkamsárásir

Tvær líkamsárásir voru tilkynntar til lögreglu á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Í öðru tilfellinu var maður skorinn með brotinni flösku utan við skemmtistað í miðborginni og hlaust af þó nokkur blæðing á handlegg. 

Upphaf átakanna má rekja til ágreinings inni á staðnum milli þessara aðila sem endaði með þessum afleiðingum.

Þá var maður sleginn í höfðuð með glasi á dansgólfi á skemmtistað í miðborginni og hlaut hann við það skurði í andliti og á hendi. Í báðum tilfellum voru menn fluttir með sjúkrabifreiðum á slysadeild en ekki er um alvarlega áverka að ræða. Málin eru til rannsóknar hjá lögreglu. 

Með hníf á milli brjóstanna

Lögreglan fékk tilkynningu um „fjölvopnaða“ unga konu fyrir utan skemmtistað í miðborginni sem væri með hótanir í garð dyravarða. Fram kom að hún væri með piparúðavopn, hníf og kylfu. Konan fannst skömmu síðar, þá með myndarlega stálkylfu í handtöskunni. Í viðræðum við varðstjóra viðurkenndi konan að hafa verið með hníf skömmu áður en lögreglu bar að en að hún hefði tapað honum á hlaupum en hnífnum hafði hún fundið geymslustað milli brjósta. Hún tók fram að hann hefði tollað illa þar og ítrekað sigið niður á maga og því fór sem fór. Það kom ungu konunni, sem var nokkuð ölvuð, á óvart að slíkur vopnaburður væri óheimill og að hún yrði kærð fyrir að hafa umrædda kylfu í fórum sínum 

Þrír voru teknir fyrir ölvun við akstur í nótt á höfuðborgarsvæðinu.  Í þeim hópi var 18 ára stúlka sem einnig ók yfir leyfilegum hámarkshraða. Maður á þrítugsaldri var tekinn fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna. Öll munu þau eiga von á hárri fésekt og ökuleyfissviptingu.  

Þá var stúlka á nítjánda ári svipt ökuréttindum um fjögurleytið í nótt eftir að hafa verið mæld á Reykjavíkurvegi í Hafnarfirði á 107 km hraða þar sem hámarkshraði er 50 km/klst. 

Nærri 100 mál voru skráð og afgreidd hjá lögreglu á höfuðborgarsvæðinu frá klukkan 23:00 til 07:00 og telst það í meðallagi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka