Þeir sem unnu að slökkvistarfi við bæinn Rauðkollsstaði á suðaustanverðu Snæfellsnesi gripu til þess ráðs að grafa upp úr skurðum til að hefta útbreiðslu sinuelds sem logaði á nokkrum hekturum. Búið er að slökkva eldinn, en enn rýkur úr mónum.
Bjarni Þorsteinsson, slökkviliðsstjóri í Borgarbyggð, segir að landið sé mjög þurrt á Vesturlandi, enda hafi nánast ekkert rignt þar í vel á annan mánuð. Hann segist ekki kalla það rigningu þótt aðeins blotni á steinum. Bjarni segir að mikil eldhætta sé víðar og fólk þurfi að fara mjög varlega með eld. Reykingamenn þurfi að passa að henda ekki frá sér logandi stubbum.
Slökkvilið Borgarbyggðar vann ásamt bændum á svæðinu við að slökkva eldinn við Rauðkollsstaði. Bjarni segir að haugsugur bænda hafi komið að góðum notum, en þær hafi dælt vatni yfir brunasvæðið. Mjög erfitt var að slökkva almennilega í sinunni enda er hún þykk og talsvert mikill hrís á svæðinu. Undir er síðan mór sem er góður eldsmatur. Bjarni segir að það eina sem hafi dugað hafi verið að dæla nægilega miklu vatni á móinn.
Bjarni segir að talsverður vindur hafi verið á brunastað í gærkvöldi og það hafi valdið erfiðleikum við slökkvistarfið. Til að koma í veg fyrir að eldurinn breiddi úr sér hafi menn gripið til þess ráðs að moka upp úr skurðum.
Landið sem brann er mólendi sem verið var að gera klárt undir skógrækt. Búið var að kílræsa það og því var ekki auðvelt fyrir traktora með haugsugur að komast um landið.
Bjarni segir að enn rjúki úr landinu og það geti gert það næstu vikurnar vegna þess að mjög erfitt sé að slökkva algerlega í mónum. Hann segir að landeigandi muni vakta svæðið og tryggja að ekki kvikni aftur í sinunni.